„Góð staða þjóðarbúsins er farin að skila sér inn í rekstur Reykjavíkurborgar sem lítur út fyrir að verða betri árið 2016 en verið hefur hjá núverandi meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna allt þetta kjörtímabil sem og forvera þessa meirihluta frá 2010,“ segir í fréttatilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

„Reksturinn er að lagast enda eru tekjur samstæðu að aukast um 13% á tveimur árum hjá borginni sem heldur sköttum í hámarki með því að nýta sér þann ramma í botn sem lög um álagningu útsvars leyfa.“

Segja óhemjuhagstæð ytri skilyrði ekki nýtt í skuldalækkun

Segir í tilkynningunni að þrátt fyrir þennan rekstrarbati sjáist engin merki þess að skuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hlutar séu að lækka, sem þýði að Reykjavíkurborg verði áfram í hópi skuldugustu sveitarfélaga landsins þrátt fyrir það sem þeir kalla óhemju hagstæð ytri skilyrði.

„Þær verða áfram rétt um 300 milljarðar kr. og skuldir A hluta munu hækka út 80,7 milljörðum kr. í 91 milljarð kr. milli ára,“ segir í tilkynningunni.

„Þá benda áætlanir einnig til þess að samstæða Reykjavíkurborgar verði yfir löglegu hámarki skuldahlutfalls skv. sveitarstjórnarlögum til a.m.k. ársins 2020 en lækkun skuldahlutfalls er drifin áfram af hækkun tekna eins og segir í kynningu á frumvarpinu að fjárhagsáætlun.“