Í lok maí voru sparifjáreigendur á netinnlánsreikningi Kaupþings, Kaupthing Edge, orðnir 150 þúsund og innlánin námu þá um 2,4 milljörðum evra eða tæplega 290 milljörðum íslenskra króna. Þetta eru síðustu „opinberu“ tölurnar frá Kaupþingi um innlán á Kaupthing Edge.

Svo virðist sem sparifjáreigendum hafi haldið áfram að fjölga og í nýrri frétt á norska viðskiptavefnum e24.no segir að sparifjáreigendur Kaupthings Edge telji nú 160 þúsund og að heildarinnlánin, sem safnast hafi frá því Kaupthing Edge var hleypt af stokkunum í fyrrahaust, nemi nú 23 milljörðum norskra króna, eða ríflega 340 milljörðum íslenskra króna.

Tekið skal fram að Kaupþing hefur ekki staðfest þessar tölur. Kaupthing Edge er nú í boði í Bretlandi, Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Sviss og á eyjunni Mön. Danski bankinn FIH, sem er í eigu Kaupþings, býður einnig sambærilega innlánareikninga en undir eigin nafni.