Fasteignarþróunarfélagið Kaldalón hefur gengið frá kaupum á félaginu Hvannir ehf. samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Helsta eign félagsins er Storm hótel, 93 herbergja hótel við Þórunnartún 4 í Reykjavík, sem rekið er af KEA hótelum.

Félagið er metið á 2,15 milljarða króna en til frádráttar koma skuldir upp á um 1,65 milljarða króna. Þvi nemur kaupverðið um hálfum milljarði króna sem greiða á með nýjum hlutum í Kaldalóni á genginu 1,3 krónur á hlut.

Samhliða því hyggst félag í eigu Jonathan B. Rubini, ríkasta manns Alaska, kaupa hluti fyrir um 360 milljónir króna í Kaldalóni, sem einnig eru keyptir á genginu 1,3 krónur á hlut.

Rubini er annar eigandi og stjórnarformaður fasteignafélagsins JL Properties í Anchorage, Alaska. Markaðsvirði eigna félagsins er yfir 240 milljarðar króna. JL Properties eru meðal stærstu hluthafa KEA hótela.

Í tilkynningu frá Kaldalóni kemur fram að tímabundið samkomulag sé í gildi við leigjanda hótelsins um skertar greiðslur vegna COVID-19 faraldursins en áætlanir Kaldalóns gera ráð fyrir að hótelið verði í fullum rekstri ekki síðar en í árslok 2022. Þá eru viðskiptin háð endanlegri kaupsamningsgerð og en stefnt er að undirritun kaupsamnings og afhendingu þann 15. ágúst.