Bandaríska ríkið hefur selt 70,2 milljónir hlutabréfa í bandaríska bílaframleiðandanum General Motors. Ríkið eignaðist bréfin þegar fyrirtækið lenti í kröggum árið 2008 sem leiddi til þess að ríkissjóður þurfti að leggja fyrirtækinu til 51 milljarð dala, jafnvirði 6.200 milljarða íslenskra króna. Áætlað er að bandaríski ríkiskassinn hafi tapað 10 milljörðum dala á björguninni.

Fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times í dag að bandaríska fjármálaráðuneytið situr enn á 31,1 milljónum hluta í General Motors. Stefnt er að því að selja hlutinn fyrir áramót.