Með sérstökum lögum um Vaðlaheiðargöng var vikið til hliðar þeim skilyrðum fyrir veitingu ríkisábyrgða að sá sem fær ríkisábyrgð leggi fram hið minnsta 20% af heildarfjárþörf verkefnis og að ábyrgð ríkissjóðs nemi ekki hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf þess. Þetta kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðunar um ábyrgðir.

Um ástæðu þessa segir í skýrslunni: „Að mati Ríkisendurskoðunar virðist tilgangur þess að víkja framangreindum skilyrðum til hliðar einkum hafa verið sá að heimila lán sem næmi 100% af lánsfjárþörf verkefnisins. Áætlanir gerðu enda ráð fyrir að kostnaður við verkframkvæmdir yrði um 8,7 ma.kr. (án virðisaukaskatts) á verðlagi í árslok 2011. Með því að víkja skilyrðunum frá var sú grunnregla laga um ríkisábyrgðir sem á að fyrirbyggja að ríkissjóður taki of mikla áhættu við ábyrgðarveitingar gerð óvirk.“

Ríkisendurskoðun segir þetta í  andstöðu við það meginmarkmið ríkisábyrgðalaga að lágmarka skuli áhættu ríkissjóðs við veitingu ríkisábyrgða.

Hér má lesa skýrsluna í heild.