Hinir fjársterku ríkisfjárfestingarsjóðir olíuútflutningsríkja í Miðausturlöndum eru ekki í þeirri aðstöðu að geta mildað skaðleg áhrif á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í kjölfar hruns bandaríska fjárfestingabankans Bear Stearns. Þetta segir Ahmed bin Sulayem, stjórnarformaður Dubai World, fjárfestingarsjóðs í eigu þarlendra stjórnvalda.

„Við erum að fylgjast með öllu því sem á sér stað á mörkuðum, en það er ekkert sem við getum gert til að stoppa þessa þróun,“ segir Sulayem.

Fjölmörg vestræn fjármálafyrirtæki hafa rennt hýru auga til ríkisfjárfestingarsjóða í Miðausturlöndum og Asíu í því augnamiði að vinna bug á þeirri lausafjárþurrð sem nú ríkir á fjármagnsmörkuðum. Sérfræðingar leiða nú hins vegar að því líkur að í kjölfar hruns Bears Stearns séu ríkisfjárfestingarsjóðir i Miðausturlöndum kannski farnir að endurskoða áhuga sinn á að fjárfesta í bandarískum fjármálafyrirtækjum.