Embætti Ríkislögreglustjóra áætlar að verja 146,8 milljónum króna í einkennisfatnað á 660 lögreglumenn landsins á næstu þrem árum. Kemur þetta fram í útboðsgögnum Ríkiskaupa þar sem framleiðsla og innkaup á þessum fatnaði eru boðin út. Óskað er eftir tilboðum í einkennisfatnað lögreglumanna allra lögregluembætta landsins.

Útboðinu er skipt í sex flokka og áætluð innkaup til þriggja ára eru:

Flokkur 1. Einkennishúfur 4,5 milljónir króna.

Flokkur 2. Hátíðarbúningur 5,4 milljónir króna.

Flokkur 3. Daglegur vinnufatnaður 83,4 milljónir króna.

Flokkur 4. Annar fatnaður 9,9 milljónir króna.

Flokkur 5. Skófatnaður 38,2 milljónir króna.

Flokkur 6. Einkenni 5,4 milljónir króna.

Samtals gerir þetta 146,8 milljónir króna m.vsk.

Gert er ráð fyrir að hægt sé að framlengja samningi þrisvar sinnum þannig að heildarinnkaup vegna þessa útboðs miðað við sex ára samningstíma er 294 milljónir króna.

Áætlað magn einkennisfatnaðar fer eftir reglum sem gilda um úthlutun á fatnaði eins og þær eru skilgreindar í drögum að reglugerð og verklagsreglum um einkennisbúninga, stöðueinkenni og úthlutaðan búnað lögreglunnar. Bjóðendur skulu gera ráð fyrir að fatnaður henti jafnt báðum kynjum við lögreglustörf. Heimilt er að bjóða í einstaka efnisflokka en tilboðin verða opnuð hjá Ríkiskaupum 31. ágúst 2010 kl. 11:00.