Stjórnvöld víðs vegar í þróunarlöndum heimsins reyna nú eftir fremsta megni að ýta undir innflutning á landbúnaðarafurðum og setja hömlur á útflutning. Aðgerðunum er ætlað að afstýra frekari verðhækkunum á helstu matvörum og koma í veg fyrir að félagsleg ólga breiðist út í samfélaginu.

Fram kemur í frétt Financial Times að Sádi-Arabía hafi á þriðjudaginn lækkað innflutningstolla á hinum ýmsu innflutningsvörum; 25% tollur á hveiti var afnuminn með öllu, en einnig voru tollar lækkaðir á fuglakjöti, jurtaolíu og mjólkurafurðum.

Indversk stjórnvöld gripu til sambærilegra aðgerða á mánudaginn. Tollar voru lækkaðir á matarolíu og maís, auk þess sem útflutningsbann var lagt á allar tegundir hrísgrjóna - að undanskildum basmati hrísgrjónum. Á sama tíma greindi ríkisstjórn Víetnam, einn stærsti hrísgrjónaútflytjandi heimsins, að það myndi draga úr útflutningi um 11% á þessu ári. Heimsmarkaðsverð á hrísgrjónum hefur hækkað um næstum 50% frá því ársbyrjun, að því er Dow Jones-fréttaveitan greinir frá.

Sérfræðingar eiga jafnvel von á því að verðið muni halda áfram að hækka á öðrum ársfjórðungi, en slíkt mun að miklu leyti velta á því hversu mikið magn af hrísgrjónum Indland og Víetnam geta selt á alþjóðamörkuðum. Ólíklegt þykir að Indverjar muni aflétta útflutningsbanni sínu á hrísgrjónum fyrr en í fyrsta lagi í júní næstkomandi.