Samkvæmt nýjustu könnun Maskínu telja tæp 60% aðspurðra borgarstjórn Reykjavíkur standa sig illa. Hátt í 58,6% segja meirihlutann standa sig annaðhvort fremur illa eða mjög illa.

Könnunin fór fram 17. til 29. ágúst og svöruðu henni tæplega þúsund manns.

Óánægja með störf borgarstjóra og borgarstjórnar virðist hafa færst í aukana undanfarið ár en í desember á síðasta ári sögðust 46,6% telja borgarstjórnina standa sig illa, miðað við 54,1% í mars á þessu ári og 58,6% í nýjustu könnuninni.

Aðeins 14,7% aðspurðra töldu meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur standa sig vel og af þeim sögðust aðeins 3,4% hana standa sig mjög vel.

Karlar sem eru eldri voru mun óánægðari með störf borgarstjórnarinnar en óánægjan fór minnkandi meðal kvenna eftir því sem aldurshópurinn hækkaði. 49,6% karla sem voru eldri en 60 ára töldu borgarstjórnina standa sig mjög illa en aðeins 15,7% kvenna í sama aldursflokki.

Ef kosið yrði til sveitastjórna í dag myndu 25,9% kjósa Samfylkinguna, 25% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 13,6% myndu kjósa Pírata.

Sunna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, er sögð hafa staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili, eða að mati 19,2% aðspurðra. Í öðru sæti var Dagur B. Eggertsson með 13% atkvæða og í því þriðja sat Hildur Björnsdóttir með 11,2%.