Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, hafa rússnesk yfirvöld lýst yfir stuðningi við ákvörðun OPEC um að draga úr framleiðslu á olíu. Líklegt er að Rússar nái samkomulagi við OPEC ríkin um frekari temprun í nóvember.

Fyrir stuttu náðu OPEC ríkin að semja sín á milli um að draga úr framleiðslu. Markmiðið er að framleiða um 700.000 tunnum minna á dag, en hefur hingað til verið gert.

Á orkuráðstefnu í Istanbúl, lýsti Vladimir Putin, forseti Rússlands yfir stuðningi sínum, en hann er bjartsýnn um að Rússar nái að komast að góðu samkomulagi við OPEC ríkin.

Fréttirnar hafa ýtt undir verðhækkanir á hráolíu, sem hefur lækkað umtalsvert á seinustu árum. Tunnan hefur ekki verið jafn dýr í heilt ár.

OPEC ríkin 14 framleiða um þriðjung af allri olíu heimsins. Verðlækkanir undanfarinna ára hafa haft umtalsverð áhrif á efnahag þjóðanna, sem eru mörg hver ansi háð olíuframleiðslu.

Samtökin munu funda aftur í lok nóvember og þá verða framleiðslumarkmiðin staðfest. Undanfarið hefur framleiðsla ríkjanna verið um 32,5 til 33 milljónir tunna á dag.