Þeim spurningum er enn ósvarað hvers vegna Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, Gylfi Magnússon, þáverandi viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri fóru með rangt mál um eiginfjárstöðu Spron dagana eftir yfirtöku FME í mars árið 2009. Þetta er mat Árna H. Kristjánssonar sagfræðings. Árni hefur ritað bók um sögu Spron. Í umfjöllun um fall sparisjóðsins í kjölfar bankahrunsins segir hann margt benda til að stjórnvöld hafi í veigamiklum atriðum vikið frá faglegum vinnubrögðum til þess að knésetja Spron.

Morgunverðarfundur Landsbankans
Morgunverðarfundur Landsbankans
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Gylfi Magnússon telur Árna fara með rangt mál og sagði í bréfi til VB.is á föstudag sannleikann þann að æðstu stjórnendur Spron hafi neitað að horfast í augu við stöðu sparisjóðsins og virðast ekki hafa upplýst almenna starfsmenn um hana áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir. Fullyrðingar þess efnis að hann hafi beitt þrýstingi til að fella sparisjóðinn sé uppspuni frá rótum. Þá sagði Gylfi bókina um sögu Spron tilraun fyrrverandi stjórnenda sparisjóðsins til að endurskrifa söguna og kenna öðrum en þeim sjálfum  um að FME tók hann yfir. Tilraunina segir Gylfi ekki pappírsins.

Árni vísar orðum Gylfa á bug og sakar hann um að hafa ekki lesið bókina. Hann hefur sent VB.is ítarlegt bréf þar sem hann fer yfir yfirlýsingar Gylfa og aðkomu stjórnvalda að falli sparisjóðsins.

Bréfið er hér orðrétt hér að neðan:

Saga SPRON og Gylfi Magnússon

Frétt sem bar heitið „Segir stjórnvöld hafa beitt afli til að knésetja Spron“ birtist á vef Viðskiptablaðsins hinn 8. janúar sl. Fréttin var unnin upp úr bók minni Hugsjónir, fjármál og pólitík. Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár . Fréttin virðist hafa komið við kaunin á Gylfa Magnússyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra, því hann skrifaði mér um hæl og sagði m.a.: „Í fréttinni var gróflega vegið að mér“ og klykkir út með: „Ætlir þú að birta bókina með tilhæfulausum og ærumeiðandi fullyrðingum um mig þá áskil ég mér allan rétt til þess að bregðast við því.“

SPRON
SPRON
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í svari mínu benti ég honum kurteislega á að hann sé hvergi persónulega sakaður um að hafa beitt þrýstingi til að fella SPRON. Jafnframt benti ég á að í bókinni væru engu haldið fram án fyrirliggjandi heimilda – þ.e. ég læt heimildirnar tala eins og kostur er. Þannig sleppti ég atriðum sem mér höfðu borist til eyrna og töldust bitastæð þar heimildir voru ótryggar. Í niðurlagi bókarinnar bendi ég á að enn sé veigamiklum spurningum ósvarað um fall SPRON. Kemur það til af dauðaþögn yfirvalda, m.a. vegna túlkunar á hugtakinu bankaleynd. Þá er bókin ritrýnd af tveimur hagsögufræðingum. Engu er því haldið fram sem er tilhæfulaust.

Þrátt fyrir að vera upplýstur um þetta þá sá Gylfi ástæðu til að koma á framfæri á vef Viðskiptablaðsins makalausri yfirlýsingu hinn 10. janúar sl. sem bar heitið: „Gylfi Magnússon: Stjórnendur Spron knésettu sparisjóðinn.“ Yfirlýsingin er afar villandi og því miður þá fellur Gylfi í þekkta gryfju, nefnilega að nota lítilmannlega taktík til að draga úr trúverðugleika niðurstöðu rannsóknar minnar á falli SPRON.

Gylfi skiptir athugasemdum sínum gróflega niður í þrjá liði:

1. Gylfi segir af og frá að hann hafi sem viðskiptaráðherra beitt pólitískum þrýstingi til að fella SPRON. „Fullyrðingar í þá veru eru uppspuni frá rótum.“

Sem fyrr segir þá kemur hvergi fram í bókinni að Gylfi hafi persónulega beitt pólitískum þrýstingi til knésetja SPRON – hvergi. Hins vegar er rakin ótrúleg saga af falli SPRON þar margt bendir til að stjórnvöld (ráðuneyti, Seðlabankinn og FME) hafi í veigamiklum atriðum vikið frá faglegum vinnubrögðum til þess að knésetja SPRON.

2. „Ekki bætti úr skák að æðstu stjórnendur sjóðsins neituðu að horfast í augu við stöðuna“.

Þetta er alrangt og raunar með ólíkindum að Gylfi, sem var viðskiptaráðherra á þessum tíma, skuli halda þessu fram. Honum er auðvitað fullkunnugt um að stjórnendur SPRON réru lífróður, undir ströngu eftirliti og í nánu samstarfi við stjórnvöld, allt frá Hruni og fram að falli sjóðsins hinn 21. mars 2009.

3. „Tilraunir til að endurskrifa söguna og leita annarra til að kenna um fall sjóðsins eru ekki pappírsins virði“.

Þessi saga hefur ekki fyrr verið skrifuð og því fráleitt að tala um að endurskrifa söguna. Það er ófagmannlegt, að dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, skuli halda því fram að þriggja ára rannsóknarvinna skuli ekki vera „pappírsins virði“ án þess að rökstyðja það með nokkrum hætti.


Eftir að hafa fengið tölvuskeytið frá Gylfa að morgni hins. 8. janúar undraðist ég strax hve ófagmannlegar athugsemdir hans voru. Skeyti hans til mín og yfirlýsing hans á vef Viðskiptablaðsins bera því glöggt vitni að hann hafi rokið til án þess að hafa kynnt sér efnið. Ég efast stórlega að hann hafi séð eða lesið bókina.

Það vekur athygli að Gylfi telur sig ekki hafa beitt sér í málefnum SPRON. Viðskiptaráðherra fer með málefni fjármálafyrirtækja og það er aumur vitnisburður ef hann hafði ekkert með málefni SPRON að gera annað en að segja starfsfólki upp í beinni útsendingu.

Gylfi Magnússon verður ekki meiri með því að reyna að minnka mig sem höfund sagnfræðiverks um sögu SPRON. Honum væri nær að sýna fagmennsku, sem hæfir menntun og stöðu hans, með því að svara eftirfarandi spurningum efnislega og þá auðvitað með tilvísanir í heimildir:

1. Af hverju nýttu stjórnvöld ekki fyrirliggjandi heimild til að leggja fram eigið fé til SPRON?

2. Hvers vegna skiptu stjórnvöld fyrirvaralaust um skoðun á lausn, sem allir hlutaðeigendur höfðu náð samstöðu um hinn 27. febrúar 2009, þannig að FME veitti frest til 30. apríl?

3. Hvers vegna svaraði FME ekki tilboði erlendra lánveitenda, dags. 18. mars 2009, þar sem þeir buðust til að fella niður 21% af lánum sínum til að efla eiginfjárstöðu SPRON?

4. Hvers vegna fóru fulltrúar Seðlabankans með rangt mál þegar þeir fullyrtu við FME að lausafjárstaða SPRON hefði versnað í mars 2009?

5. Hvers vegna fóru fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri með rangt mál um eiginfjárstöðu SPRON dagana eftir yfirtöku FME?