Gengið hefur verið frá sölu á 50% hlut í bílaumboðinu Heklu til Volkswagen í Danmörku samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Eins og Viðskiptablaðið greind frá í lok júní var salan á Heklu þá á lokametrunum en þá stóð til að Volkswagen í Danmörku myndi kaupa hlut Franz Jezorski, athafnamanns og fv. stjórnarformanns Heklu. Samkvæmt heimildum blaðsins er sú sala nú gengin eftir en það er danska félagið Semler sem á og rekur danska umboðið sem hefur eignast hlutinn.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, mun áfram eiga helmingshlut í Heklu í gegnum eignarhaldsfélag sitt Riftún ehf. auk þess sem hann mun áfram vera forstjóri félagsins. Það var fyrir tilstilli Friðberts sem Volkswagen í Danmörku kemur nú að kaupunum á fyrrnefndum hlut Franz í félaginu.

Þá má einnig gera ráð fyrir því að ný stjórn verði kjörin í félaginu en Sigurður G. Guðjónsson, hrl. er nú stjórnarformaður Heklu og situr í stjórninni fyrir hönd Franz.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins færði Volkswagen í Danmörku nýlega fjármagn til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans til að kaupa fyrrnefndan hlut í félaginu. Eftir því sem blaðið kemst næst er þar um að ræða 700-800 miljónir króna.

Langur aðdragandi

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um hafa þeir Franz og Friðbert átt í nokkrum deilum frá því að þeir keyptu saman félagið af Arion banka í byrjun árs 2011. Til upprifjunar má nefna að í byrjun febrúar sl. gerðu þeir Frans og Friðbert samkomulag um að annar aðilinn skyldi kaupa hinn út. Friðbert fékk frest til 15. mars til að fjármagna kaup sín á hlut Franz í félaginu ella myndi Franz kaupa Friðbert út.

Undir lok þess tímabils var Friðbert kominn með Volkswagen í Danmörku í lið með sér, ef þannig má að orði komast. Hins vegar náði hann ekki að fjármagna kaupin á tilsettum tíma. Friðbert bað um aukinn tíma til að fjármagna og ganga frá kaupunum en Franz varð ekki við þeirri beiðni. Um leið og fresturinn rann út, kl. 16 föstudaginn 15. mars, sendi Franz starfsmönnum Heklu tölvupóst þar sem fram kom að hann myndi kaupa hlut Friðberts í félaginu og að Friðbert myndi í kjölfarið láta af störfum sem forstjóri. Í sama tölvupósti bauð hann starfsmönnum Heklu í teiti.

Samkvæmt samkomulaginu fékk Franz í kjölfarið átta vikur til að fjármagna kaupin á 50% hlut Friðberts í Heklu. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á þeim tíma var hluturinn metinn á um 1,1 milljarð króna en þó var einnig tekist á um það verð af hálfu beggja aðila. Hins vegar varð ekkert af kaupunum og þegar Viðskiptablaðið, um miðjan maí sl. spurði Franz um ástæður þess sagðist hann ekkert vilja tjá sig um málið. Ekki hefur fengist uppgefið hvort honum tókst ekki að fjármagna kaupin eða hvort Volkswagen í Þýskalandi og aðrir framleiðendur sem Hekla hefur umboð fyrir hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir kaupunum, en slíkt samþykki þarf að vera til staðar til að halda þeim umboðum sem félagið hefur.

Sem fyrr segir hefur Friðbert nú samið við Volkswagen í Danmörku sem hefur keypt helmingshlut Franz í félaginu í samstarfi við Friðbert.