*

mánudagur, 20. september 2021
Erlent 9. febrúar 2020 17:04

Samdráttur á stærsta bílamarkaði heims

Stærsti bílamarkaður heims, í Kína, hefur dregist saman samfleytt í eitt og hálft ár. Nú stefnir í metsamdrátt vegna kóróna vírusins.

Ingvar Haraldsson
epa

Kórónuvírusinn hefur valdið kínversku hagkerfi miklum búsifjum. Ein afleiðing þess er að það stefnir í metsamdrátt í bílasölu í Kína. Samtök bílaframleiðenda í Kína búast við 25-30% samdrætti í bílasölu á fyrstu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tímabil fyrir ári.

Borgin Wuhan, þar sem vírusinn á upptök sín, er ein stærsta bílaframleiðsluborg Kína. Vírusinn kemur því illa við bílaframleiðendur. Bílaverksmiðjum var lokað um tveggja vikna skeið í kringum kínverska nýja árið en flestir bílframleiðendur hafa framlengt lokunina vegna vírussins.

Samdráttur á kínverskum bílamarkaði á sér þó talsvert lengri aðdraganda. Bílasala í Kína hafði dregist saman átján mánuði í röð áður en kórónuvírusinn komst í heimsfréttirnar. Alls dróst bílasala í Kína saman um 8,2% milli áranna 2018 og 2019, og um 3% milli áranna 2017 og 2018. Þetta er fyrsti samdráttur í bílasölu í Kína í nær þrjá áratugi, sem hefur frá árinu 2009 verið stærsti bílamarkaður í heimi. Haldi samdráttur upp á tugi prósenta áfram út árið gæti svo farið að nafnbótinn stærsti bílamarkaður heims gæit verið í hættu.

Ein ástæða fyrir samdrætti síðustu tveggja ára er óvissa í efnahagsmálum. Viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kínverja er kennt um að hluta. Hagvöxtur í Kína var sá minnsti í 30 ár á síðasta ári. Opinberar tölur, sem þó ber að taka með vissum fyrirvara, segja að 6,1% hagvöxtur hafi verið í landinu árið 2019 og 6,7% árið 2018. Hægari gangur í efnahagslífinu hefur leitt af sér að margir bíða með að kaupa sér bíla sem vega þungt í heimilisbókhaldinu.

Breytingar stjórnvalda hægt á markaðnum Þó virðast aðgerðir kínverskra stjórnvalda einnig eiga stóran þátt í samdrættinum. Harðari reglur um mengunarvarnir og lægri skattaafsláttur vegna bílakaupa skipta þar miklu. Síðasta sumar tók nýr mengunarvarnarstaðall gildi í stærstu borgum Kína ári áður en til stóð. Áhyggjur af mikilli mengun í borgunum varð til þess að kínversk stjórnvöld flýttu innleiðingunni, en í kjölfarið sátu bílasölur eftir með sárt ennið og fjölda bíla sem illmögulegt var að selja.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Kína bílasala Kína kóróna vírus