Vegna þess að fjárframlög ríkisssjóðs til stjórnmálaflokka fara eftir fylgi þeirra í kosningum munu fráfarandi stjórnarflokkar verða af verulegum fjárhæðum vegna fylgistapsins í síðustu kosningum.

Árlega er úthlutað fé úr ríkissjóði til þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi eða hafa fengið a.m.k. 2,5% atkvæða í alþingiskosningum.

Fjárhagslegt tjón, ef þannig má að orði komast, Samfylkingarinnar vegna þess fylgistaps sem flokkurinn varð fyrir um síðustu helgi mun að öllu óbreyttu nema um 243 milljónum króna á komandi kjörtímabili. Þessu til viðbótar greiðir Alþingi af sjóðum sínum svokallaðar þingmannaeiningar til flokkanna. Hver eining er um 800 þúsund krónur á ári. Hver þingflokkur fær eina einingu á ári auk eininga í takt við þingmannafjölda. Þannig mun Samfylkingin, sem fékk níu menn kjörna, fá tíu einingar árlega.

Á síðasta kjörtímabili fékk Samfylkingin alls 424,8 milljónir frá ríkinu en mun á næsta kjörtímabili að öðru óbreyttu fá 181,6 milljónir. Munurinn á milli kjörtímabilanna er því 243,3 milljónir króna.

Nánar er fjallað um fjárframlög til stjórnmálaflokkanna í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .