*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 22. október 2020 10:41

Samherji kaupir helming í Aquanor

Samherji hefur keypt helmingshlut í bandaríska félaginu Aquanor Marketing. Kaupin gera Samherja kleift að vaxa meira vestanhafs.

Ritstjórn
Aquanor hefur verið einn helsti viðskiptavinur Samherja í meira en áratug.

Samherji hefur gengið frá kaupum á helmingshlut í Aquanor Marketing, Inc. Félagið er með höfuðstöðvar sínar í Boston, Bandaríkjunum og sérhæfir sig í innflutningi, dreifingu og sölu ferskra sjávarafurða vestanhafs. Frá þessu er greint á heimasíðu Samherja.

Þar kemur fram að Samherji og Aquanor hafi átt í viðræðum um nokkurra mánaða skeið en gengið var frá samkomulaginu í byrjun október. Aquanor hefur verið einn helsti viðskiptavinur Samherja í meira en áratug og segir í tilkynningu félagsins að mikill hluti af innflutningi Aquanor á þessu tímabili hefur komið frá Samherja.

„Í kjölfar fjárfestingarinnar mun Orri Gústafsson ganga til liðs við Aquanor frá Samherja, flytjast búferlum til Boston og verður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá félaginu,“ segir í tilkynningunni. Auk þess mun Aquanor nú beina sjónum sínum enn fremur að markaði fyrir frosinn þorsk og bleikju í Bandaríkjunum. Samherji fiskeldi er í dag stærsti einstaki bleikjuframleiðandi í heimi.

„Aquanor Marketing er vel rekið fjölskyldufyrirtæki og eigendur þess deila gildum okkar og framtíðarsýn. Þessi fjárfesting mun gera okkur kleift að halda áfram að vaxa í Bandaríkjunum. Um er að ræða mikilvægan markað fyrir okkur sem verður enn mikilvægari í framtíðinni vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á eftirspurn í kjölfar heimsfaraldursins. Þrátt fyrir þessar erfiðu kringumstæður hlökkum við til áframhaldandi vaxtar og uppbyggingar Aquanor á þeim trausta grunni sem samstarf fyrirtækjanna hefur mótað,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja í tilkynningu félagsins.

Stikkorð: Samherji Inc. Aquanor Marketing