*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 12. september 2012 16:48

Samherji og fleiri fá að kaupa hlut í Olís

Skilyrði eru sett við eignarhaldi útgerðar á olíufélagi í heimild Samkeppniseftirlitsins til að kaupa meirihluta hlutafjár í Olís.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Ein bensínstöðva Olís.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur veitt Samherja og FISK Seafood, félagi Kaupfélags Skagfirðinga, heimild til að kaupa meirihluta hlutafjár í Olís. Nokkur skilyrði eru sett fyrir kaupunum sem tryggja eiga samkeppni á olíumarkaði. Skilyrðin lúta m.a. að samkeppnislegu sjálfstæði Olís og eiga að koma í veg fyrirr að eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja á Olís geti verið vettvangur til samráðs.

Viðræður hafa staðið yfir á milli Samkeppniseftirlitsins og hluthafa Olís vegna málsins og hefur sátt náðst í málinu. Samkeppniseftirlitið hefur ekki birt ákvörðun í málinu. Það verður gert á næstu dögum, að sögn Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Viðskiptablaðið greindi frá því í kringum síðustu áramót að viðræður við nýja hluthafa Olís væru langt komnar. Aðkoma nýrra hluthafa er liður í fjárhagslegri endurskipulagningar Olís sem unnið hefur verið að með Landsbankanum. Í samkomulaginu fólst m.a. að núverandi eigendur Olís, forstjórinn Einar Benediktsson og lögmaðurinn Gísli Baldur Garðasson lögmaður áttu að afla félaginu viðbótar hlutafé. 

Ekki liggur fyrir hvernig skipting hlutafjár Olís verður eftir kaup Samherja og FISK Seafood í félaginu en ljóst þykir að eignahlutur þeirra Einars og Gísla skerðist verulega. 

Stikkorð: Olís Samherji Fisk Seafood