Félagið Thorsil tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði gert samkomulag við Landsvirkjun um skilmála langtímasamnings um raforkukaup fyrir kísilmálmverksmiðju sem Thorsil hyggst reisa og reka að Bakka við Húsavík. Samkomulagið er háð vissum fyrirvörum sem ber að uppfylla fyrir endanlega gildistöku raforkukaupasamningsins. Áformað er að samningur þessa efnis verði undirritaður í haust en að kísilmálmverksmiðja verði reist haustið 2013 og að framleiðsla geti hafist tveimur árum síar.

Viðræður standa nú yfir uvið Norðurþing um leigu á lóð undir verksmiðjuna og afnota af höfninni á Húsavík. Ennfremur standa nú yfir viðræður á milli Thorsils og Landsnets um flutning á raforku til verksmiðjunnar. Thorsil hefur ráðið Arctica Finance í Reykjavík til ráðgjafar við að fjármagna verkefnið.

Vinna við mat á umhverfisáhrifum kísilmálmverksmiðju Thorsils á Bakka er þegar hafin og annast verkfræðistofan Mannvit  þá vinnu.

Að félaginu Thorsil standa Northsil og Strokkur Energy. Í tilkynningu frá félaginu segir ennfremur að á grunni samkomulagsins hafi eigendur Thorsils gert samkomulag (letter of intent) við tvö alþjóðleg fyrirtæki um að þau verði hluthafar í Thorsil. Þessi erlendu fyrirtæki hafa einnig undirritað viljayfirlýsingu (letter of intent) um að þau kaupi umtalsvert magn af kísilmálmi sem framleiddur verður í verksmiðju Thorsils á Bakka.

Í tilkynningu frá félaginu segir að samkomulag Thorsils við Landsvirkjun sé mjög stór áfangi í þeirri vinnu að gera áform Thorsils um að byggja kísilmálmverksmiðju á Íslandi að veruleika.