Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að ekki þurfi að grípa til aðgerða vegna rekstrarsamninga milli tiltekinna lífeyrissjóða og rekstraraðila þeirra.

„Samkeppniseftirlitið telur að á milli Frjálsa lífeyrissjóðsins og Kaupþings banka séu mikil efnahagsleg og stjórnunarleg tengsl og því sé um að ræða eina efnahagslega einingu í skilningi samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið álítur einnig að á milli Íslenska lífeyrissjóðsins og Landsbanka Íslands séu mikil efnahagsleg og stjórnunarleg tengsl og því sé einnig um að ræða eina efnahagslega einingu í skilningi samkeppnislaga. Aftur á móti er talið að ekki séu sambærileg tengsl á milli Almenna lífeyrissjóðsins og Glitnis, "segir í frétt Samkeppniseftirlitsins.

Talið er í úrskurði eftirlitsins að þetta rekstrarfyrirkomulag leiði af sér hvata fyrir rekstraraðila til þess að beita sér í samkeppni við aðra sjóði. Einnig er ofangreint fyrirkomulag ekki talið fela í sér samkeppnishömlur sem hafa neikvæð áhrif á hagsmuni sjóðsfélaga.