*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 28. september 2016 08:05

Samkeppnishæfni Íslands eykst

Ísland færist upp um tvö sæti á lista WEF yfir samkeppnishæfni þjóða, og endar í 27. sæti, Sviss trónir á toppnum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýútkominni skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) færist Ísland upp um tvo sæti á árlegum lista sem ráðið tekur saman yfir samkeppnishæfni landa.

Endar Ísland í því 27. af alls 138 þjóðríkjum sem tóku þátt í rannsókn ráðsins að þessu sinni.

Sviss, Singapúr og Bandaríkin efst

Í fyrsta sæti er Sviss, áttunda árið í röð, og telst það því samkeppnishæfasta efnahagslíf heimsins. Þó er mjótt á mununum á milli Sviss, Singapúr og Bandaríkjanna.

Í næstu sætum þar á eftir koma Holland og Þýskaland, en þau hafa skipt um sæti við hvort annað frá árinu á undan.

Indland hástökkvari ársins

Það land sem risið hefur hraðast er Indland, en það hækkar um 16 sæti á listanum síðan í fyrra og er nú í 39. sæti. 

Í skýrslunni er átalið það sem höfundar hennar kalla lokun hagkerfa heimsins en þeir telja að síðustu 10 ár hafi þróunin verið í þá átt sem standi í veg fyrir heilbrigða samkeppni og það dragi úr vexti í efnahagsmálum.

Endurspeglar framleiðni og vaxtamöguleika

„Vísitala Alþjóða efnahagsráðsins er virtur mælikvarði á efnahagslíf þjóða víða um heim. Vísitalan er víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika þeirra,“ segir í fréttatilkynningu um málið. 

„Rannsóknin byggir á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi og sá um framkvæmd könnunarinnar hér á landi.“