Ríkisendurskoðun segir að komið hafi verið til móts við langflestar ábendingar sem gerðar voru í skýrslum um skuldbindandi samninga ráðuneyta og stofnana. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu frá Ríkisendurskoðun sem birtist í dag.

Ríkisendurskoðun gaf út átta skýrslur á árunum 2011 til 2012 þar sem fjallað var um efnið. Ríkisendurskoðun taldi þá að margt mætti betur fara í framkvæmd eftirliti og eftirfylgni ráðuneyta með þessum samningum. Hjá sumum ráðuneytum vantaði t.d. yfirsýn yfir skuldbindingar samninganna, greitt var eftir útrunnum samningum, eftirliti var ábótavant og greiðslur ekki í samræmi við samninga. Alls setti ríkisendurskoðun fram 41 ábendingu, flestar (eða níu talsins) voru til menntamálaráðuneytisins, en rétt er að geta að menntamálaráðuneytið var með lang flesta samninga á sinni könnu.

Ítreka tvær ábendingar

Eins og áður sagði var komið til móts við lang flestar ábendingar en Ríkisendurskoðun taldi ástæðu til að ítreka tvær ábendingar, eina til velferðaráðuneytisins og eina til umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

  • Til velferðaráðuneytisins ítrekaði Ríkisendurskoðun að móta þurfi reglur um úttektir og endurskoðun á samningstíma og tryggja að eftirlit sé í samræmi við ákvæði samninga. Efla þarf eftirlit og eftirfylgni með reglulegum úttektum á samningstíma. Mikilvægt er að gera viðeigandi breytingar á samstarfi ef reynsla af framkvæmd samnings bendir til þess að breyta þurfi áherslum eða ef þörf fyrir umsamda þjónustu breytist. Auk þess þarf að fylgjast með því á samningstíma hvernig fjárframlagi ríkisins er ráðstafað, hvort unnið sé í samræmi við samning og hvort markmiðum sé náð.
  • Til  umhverfis- og auðlindaráðuneytis var ítrekað að koma þurfi meðferð innsendra gagna og endurgjöf í formlegri farveg. Skerpa þarf á verklagsreglum ráðuneytisins um samningamál þannig að meðferð upplýsinga frá samningsaðilum og endurgjöf verði komið í formlegri farveg.

Komið var til móts við aðrar ábendingar með þeim hætti að Ríkisendurskoðun sér ekki ástæður til að ítreka þær.

  • Á árunum 2011–12 gaf Ríkisendurskoðun út samtals átta skýrslur um skuldbindandi samninga ráðuneyta og stofnana við aðila utan ríkisins. Um er að ræða samninga um margvísleg verkefni sem samtök, einkaðilar og sveitarfélög hafa tekið að sér gegn greiðslum úr ríkissjóði. Alls voru virkir samningar af þessu tagi 179 árið 2011 og nam áætlaður heildarkostnaður af þeim um 39,6 ma.kr. það ár. Um 82% kostnaðarins var vegna þriggja ráðuneyta: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti), velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.