Ann Armstrong er lektor við Guelph-háskóla, yfirmaður Social Enterprise Initiative við Háskólann í Toronto og stundakennari í MBA-náminu í Háskólanum í Reykjavík. Hún er auk þess afkastamikill fræðimaður og sjálfstæður ráðgjafi. Armstrong hefur lengi látið sig jafnréttismál varða, og hefur undanfarin ár komið árlega til Íslands til að kenna við HR. Það liggur beinast við að spyrja hana fyrst hver sé helsti munurinn á MBA-náminu hér á landi og því sem hún þekkir erlendis.

„Það sem sló mig um leið og ég kom hingað fyrst fyrir rúmum sjö árum síðan var fjölbreytileikinn. Fjölbreytileikinn hérna felst í kynjafjölbreytileika, jöfnum kynjahlutföllum, og það er mjög ólíkt því sem ég á að venjast í kennslu í Kanada. Þar er ýmiss konar fjölbreytileiki til staðar, en kynjafjölbreytileiki er ekki einn þeirra. Munurinn þarna á var frá upphafi sláandi,“ segir Armstrong.

Hún segir þessi jöfnu hlutföll meðal kvenna og karla í náminu hafa haft mjög jákvæð áhrif, bæði í tímunum sjálfum sem og í öllum umræðum sem upp geta komið. „Við eigum alveg örugglega í upplýstari umræðum, meðal annars um svokölluð kynjamál. Mér líkar ekki við þann stimpil því hann gefur í skyn að kynjamál séu mál sem ekki koma öllum við. En samræðurnar okkar eru á hærra plani.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .