Sú stærð sem helst er horft til í tryggingarekstri er samsett hlutfall, sem sýnir hlutfall kostnaðar af iðgjöldum, en um er að ræða aðferð sem sýnir hvernig rekstur vátryggingahluta tryggingafélaga gengur. Ef hlutfallið er 100% duga iðgjöld tiltekins tímabils fyrir öllum gjöldum sama tímabils en ef hlutfallið er yfir 100% standa iðgjöld ekki undir kostnaði og tap er af vátryggingarekstrinum. Eðli málsins samkvæmt setja tryggingafélög sér því markmið um að hlutfallið sé undir 100%, því þá er afgangur af vátryggingarekstrinum.

Tryggingafélögin hafa öll innleitt nýjan reikningsskilastaðal, IFRS 17 um vátryggingasamninga, sem tók við af IFRS 4 og eru ársreikningar síðasta árs þeir fyrstu sem gerðir eru eftir nýja staðlinum. Helstu breytingarnar felast í framsetningu á rekstrarreikningi og efnahagsreikningi sem eru með talsvert breyttu sniði. Þar að auki eru ný hugtök innleidd og í rekstrareikningi og efnahagsreikningi og liðir endurflokkaðir. Þannig hafa t.d. stærðir á rekstrarreikningi á borð við eigin iðgjöld, eigin tjón og fjárfestingatekjur, sem áður voru talin meðal lykilstærða, horfið og stærðirnar afkoma af vátryggingastarfsemi og afkoma fjárfestinga m.a. komið inn í staðinn.

Að sögn sérfræðinga sem Viðskiptablaðið ræddi við hefur innleiðing nýs staðals ekki mikil áhrif á störf þeirra sem kafa ofan í og kortleggja rekstur tryggingafélaga. Sem áður sé samsett hlutfall sú stærð sem varpi fyrst og fremst ljósi á rekstur tryggingafélaga.

Á síðustu fimm árum var Sjóvá með lægsta samsetta hlutfallið árin 2019 og 2020. TM var svo með lægsta samsetta hlutfallið árin 2021 og 2023 en árið 2022 var Vörður með lægsta samsetta hlutfallið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.