*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 10. október 2014 17:39

Samstarf um uppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu

Iðnaðarráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu um eflingu atvinnulífs í Austur-Húnavatnssýslu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undirritaði í dag viljayfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um samstillt átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Kemur þetta fram í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.

Markmiðið með átakinu er að efla atvinnulíf á svæðinu og undirbúa uppbyggingu fyrir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins fyrir iðnaðarkosti á borð við gagnaver. 

Aðilar að viljayfirlýsingunni eru ríkisstjórn Íslands, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Húnavatnshreppur og Skagabyggð en sjálf viljayfirlýsingin byggir á þingsályktun Alþingis frá 17. október 2013.