Skandinavíska flugfélagið SAS tilkynnti í gær að það hyggðist selja eignahluti sína í þremur flugfélögum: Spanair, bmi og Air Greenland. Er þessi ákvörðun gerð með það að markmiði að hagræða í rekstri flugfélagsins, en áætlun fyrirtækisins gerir ráð fyrir því hagnaður SAS fyrir skatta upp hækki í 4 milljarða sænskra króna allt til ársins 2011og á sama tíma að draga úr rekstrarkostnaði um 2,8 milljarða sænskra króna.

Margir greiningaraðilar hafa mælt með því að SAS, fimmta stærsta flugfélagið í Evrópu miðað við farþegafjölda, beindi sjónum sínum í ríkara mæli að skandinavíska markaðinum. Það er talið að fyrirhuguð sala félagsins á eignahlutunum þremur muni veita SAS um 5 til 6 milljarða sænskra króna, en sú fjárhæð ætti að duga langt til þess að greiða niður skuldir og endurnýja gamlan flugvélaflota.

Að auki er gert ráð fyrir því skera niður í stjórnunarkostnaði og flytja höfuðstöðvar félagsins frá Stokkhólmi, en ekki hefur hins vegar enn verið gefið upp hvar hinar nýju höfuðstöðvar muni verða.