Símafélagið Saunalahti, sem fyrirtækið Novator undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar er langt komið að eignast, hefur sameinast næst stærsta símafyrirtæki Finnlands, Elisa. Novator Finland er eftir samrunann stærsti einstaki hluthafinn í sameinuðu félagi.

Markaðsvirði hins sameinaða fyrirtæki miðað við gengi félaganna í gær var 2,1 milljarður evra sem er nálægt 165 milljörðum íslenskra króna.

Til samans eru þessi tvö símafélög með um 1,9 milljón áskrifanda.

Frá því Novator hóf fjárfestingar sínar í Saunalahti í maí á þessu ári hefur gengi bréfanna í félaginu hækkað ört og hefur verðmæti eignanna hækkað á tímabilinu sem nemur 28,5 milljónum evra eða um rúma tvo milljarða íslenskra króna.