Auknir skattar á bankakerfið hafa bitnað verulega á starfsmönnum bankanna og fjölskyldum þeirra undanfarin ár. Þetta segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, í leiðara sem birtist í nýjasta fréttabréfi samtakanna. Hann skrifar leiðarann í tilefni af hækkun bankaskatts í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var í fyrradag.

„Um 2.000 starfsmenn fjármálafyrirtækja hafa misst vinnuna, lífsviðurværi sitt, á undanförnum fimm árum. Enda kemur það skýrt fram í frumvarpi að lögum um fjársýsluskattinn að skattlagningunni sé ætlað að hafa neikvæð áhrif á atvinnugreinina og starfsmenn hennar, en þar segir: ,,Loks er viðbúið að fjársýsluskattur (innsk.: launaskattur sem eingöngu er lagður á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja) hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og tryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“ Tilgangur ríkisins með nýjum fjársýsluskatti og sérstökum bankaskatti er auðsær, ,,að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“ Það er hreint með ólíkindum að þurfa að lesa og upplifa slíkan fjandskap gagnvart einni tiltekinni starfsstétt, alveg sérstaklega frá löggjafanum sem talar á hátíðarstundum um að efla og fjölga störfum kvenna,“ skrifar Friðbert Traustason í blaðið.

Hann segir að þeir alþingismenn sem samþykktu aukna skattheimtu á fjármálafyrirtæki og starfsmenn þeirra viti greinilega ekki að lengst af hafi konur skipað um og yfir 70% starfa við fjármálafyrirtækin.