*

föstudagur, 14. maí 2021
Erlent 14. apríl 2021 17:06

Segir biðraðir á Heathrow óbærilegar

Rekstraraðili flugvallarins gagnrýnir innanríkisráðuneytið fyrir skort á landamæravörðum.

Ritstjórn
Frá Heathrow flugvellinum í Lundúnum.
epa

Rekstraraðili Heathrow flugvallarins í Lundúnum segir langar biðraðir sem myndast á flugvellinum vegna Covid eftirlits við landamærin séu að verða „óbærilegar“. BBC greinir frá.

Segir Chris Garton, einn yfirmanna flugvallarins, að sumir ferðalangar hafi þurft að bíða í allt að sex klukkutíma eftir því að komast inn í landið. Hann segir jafnframt að í fleiri en eitt skipti hafi lögreglan þurft að hafa afskipti af ferðalöngum sem hafa ekki verið á þeim buxum að bíða í langri röð.

Miklar takmarkanir um komur ferðamanna eru í gildi á landamærum Bretlands vegna COVID-19 heimsfaraldursins. 

Garton kveðst hafa miklar áhyggjur af því að ástandið á flugvellinum gæti orðið enn verra ef létt verður á takmörkunum á landamærum þann 17, maí nk. líkt og áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir.

Sem stendur lendi um 10-15 þúsund manns á flugvellinum og rúmur helmingur þeirra þurfa að bíða í röð í 2-3 klukkustundir. Hann segir að núverandi verklag sé mikil byrði á herðar landamæravarða og að innanríkisráðuneytið hafi ekki skaffað nógu mörgum slíkum.

Í síðasta mánuði sagði Viðskiptablaðið frá mikilli óánægju flugfarþega með þessar löngu biðraðir á Heathrow. Það virðist því vera að bæði farþegar og starfsmenn flugvallarins hafi fengið sig fullsadda af ástandinu á vellinum. 

Stikkorð: Heathrow Lundúnir COVID-19 biðraðir