„Það er í eindreginni mótsögn við þá ímynd sem Ísland hefur í Þýskalandi að landið sé enn tengt hvalveiðum,“ segir dr. Peter Dill, forstjóri þýska fisksölufyrirtækisins Deutsche See í Bremerhaven. Fyrirtækið hefur keypt mikið af íslenskum fiski af HB Granda og fleiri íslenskum fyrirtækjum. Rætt er við Dill í Fréttatímanum í dag um hvalveiðar íslenskra fyrirtækja.

Dill segir fyrirtækið hafa góða reynslu af viðskiptum við Íslendinga og íslenskur sjávarútvegur og fiskveiðistjórnun sé til fyrirmyndar og í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Ímynd Íslands og íslenskra afurða sé einnig mjög sterk í Þýskalandi. Þó beri þann skugga á að Íslendingar tengist ennþá hvalveiðum.

Hann segir:

„Bæði viðskiptavinir okkar og neytendur almennt í Þýskalandi eru algjörlega á móti þessu og hafa alls engan skilning á afstöðu Íslendinga til hvalveiða. Þótt Íslendingar kunni að geta fært þau rök fyrir afstöðu sinni að hvalveiðarnar séu sjálfbærar þegar litið er á stofnstærð langreyðar og hrefnu þá mætir það sjónarmið engum skilningi hér í Þýskalandi. Það er einnig mjög erfitt að leggja mat á sannleiksgildi slíkra staðhæfinga utan frá. Eindregin og skipulögð andstaða er ríkandi hér gegn afstöðu Íslendinga til hvalveiða.“

Dill kemur jafnframt inn á kynningu íslenskra fyrirtækja erlendis og segir:

„Ísland er um þessar mundir að móta og kynna nýtt vörumerki og lógó fyrir íslenskar sjávarafurðir undir heitinu „Icelandic Responsible Fisheries' (IRF). Það er alveg augljóst að trúverðugleika þess starfs er teflt í hættu með því að jafnframt séu í gangi stöðugar umræður um hvalamálin. Þess vegna mundi það styðja við IRF-verkefnið ef Ísland mundi ákveða að hætta hvalveiðum,“ segir hann.