Framsetning á samkomulag um breytingu á skuldauppgjöri nýja Landsbankans við slitastjórn þess gamla er villandi og sannleikanum snúið á haus. Heiðar Guðjónsson fjárfestir og athafnamaður segir það afleik ef Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið samþykkja breytinguna á lánasamningnum og það gera afnám hafta erfiðara en ekki auðveldara.

Í samkomulaginu sem greint var frá í síðustu viku felst að lokagreiðsla skuldabréfs sem samið var um á milli bankanna í desember árið 2009 upp á 226 milljarða króna verði innt af hendi í október árið 2026 í stað 2018. Endurgreiðslur verður á tveggja ára fresti og dreifist nokkuð jafnt. Landsbankinn hefur heimild til að greiða skuldina að hluta eða að fullu upp án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu. Þá verða vaxtakjör óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR en hækka eftir það.

Heiðar segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag fréttir af samningi um lengingu lána Landsbankans vekja upp sárar minningar af IceSave. Hann rifjar jafnframt upp þegar samningurinn var gerður í uppgjöri á eignafærslu á milli gamla Landsbankans og þess nýja.

Engin lausn að lengja í láni

„Þar voru gerð tvenn alvarleg mistök: Í fyrsta lagi voru lán í erlendri mynt færð yfir á fullu verði en það skapaði bankanum tugmilljarða tjón þegar Hæstiréttur dæmdi þau ólögmæt. Í öðru lagi var skuldabréfið sem greiddi fyrir þessara lélegu eignir í erlendri mynt. Það segir ýmislegt um hvernig farið er með sannleikann að við það tilefni var því hampað sem sigri að Landsbankinn hefði skuldsett sig í erlendri mynt, að hann hefði trygga langtímafjármögnun í erlendum myntum sem væri stórt skref í að endurreisa íslenskan efnahag! Sannleikurinn var sá að það kom ekki króna í erlendum gjaldmiðlum inn í landið við gerð þessa samnings en íslenskur lögaðili, Landsbankinn, féllst á að greiða kröfur í erlendum myntum. Það var því einungis verið að auka skuldsetningu í erlendum myntum en ekki verið að fjármagna neitt, nema þá helst innihaldslausar yfirlýsingar ráðherranna,“ skrifar hann og bendir á að þeim ráðherrum sem stóðu að samningunum á sínum tíma hafi þótt ekkert óeðlilegt við það að setja alla þá áhættu sem að ofan greinir á almenning.

„Í dag blasir reikningurinn við. Það eru 250 milljarðar af erlendum skuldum, umfram eignir, í „banka allra landsmanna“ og rit Seðlabankans um fjármálastöðugleika hefur lýst því yfir frá hausti 2012 að bankinn sé ógjaldfær, það er eigi ekki fyrir skuldum sínum.

Heiðar segir það enga lausn á skuldavandanum að framlengja hann á hærri vöxtum, líkt og ætlunin er í nýja lánssamningnum. Það flýti ekki fyrir afnámi hafta að gefa einum aðila sérmeðferð við að koma gjaldeyri úr landi. Á endanum sé það íslenska þjóðin sem þarf að borga fyrir það sem aflaga fer.