*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 8. október 2019 11:45

Segir tap slitið úr samhengi

Formaður bankaráðs Seðlabankans og dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands segir það ekki gæfulega fjárfestingastefnu að taka aldrei áhættu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir í færslu á Facebook síðu sinni að fjaðrafokið vegna taps á sumum fjárfestingum lífeyrissjóðanna sé slitið úr samhengi við þá staðreynd að þegar tekin er áhætta við fjárfestingar verði stundum tap og stundum ávinningur. Leiða má líkur að því að þarna sé Gylfi að vísa til um 1,7 milljarða taps fjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóða af fjárfestingu í GAMMA: Novus en eigið fé sjóðsins hefur nær þurrkast út eins og greint var frá í síðustu viku. 

Bendir Gylfi á að líklega hafi fjárfestingar lífeyrissjóðanna aldrei skilað meiri ávöxtun í krónum talið en það sem af er þessu ári. Eignir þeirra hafi aukist um 550 milljarða á fyrstu átta mánuðum ársins og ávöxtun sé á að giska um 480 milljarðar af þeirri upphæð. 

Að mati Gylfa sé lykilatriði að velja vel við fjárfestingar svo oftast verði ávinningur af þeim en það sé ekki gæfuleg fjárfestingastefna að taka aldrei áhættu. „Þess vegna er eðlilegt, raunar óhjákvæmilegt, að sumar fjárfestingar sjóðanna skili tapi. Sumar slíkra fjárfestinga má vitaskuld gagnrýna en það á að gera á grundvelli þess sem menn máttu vita þegar þær voru gerðar, ekki þess sem er vitað löngu síðar,“ segir Gylfi. 

Að sögn Gylfa sé rétt að anda í gegn um nefið þegar tölur á borð við þær sem hafa birst á síðustu dögum koma fram. Það sé langtímaávöxtun sem skipti öllu en ekki skammtímasveiflur. Það megi því gleðjast í smá stund fyrir hönd lífeyrisþega í nútíð og framtíð.

Hér má sjá færstu Gylfa í heild sinni: