„Það er náttúrulega stærsta bull sem ég hef heyrt lengi,“ segir Magnús Garðarsson, stjórnarmaður í United Silicon á Íslandi og stærsti hluthafi félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið um fullyrðingar forstjóra ÍAV um vanefndir United Silicon . Hörð deila er komin upp milli ÍAV, sem segir United Silicon skulda sér milljarð, og United Silicon, sem segist ekkert skulda.

„Við höfum greitt alla reikninga hingað til og erum meira að segja með greiðsluábyrgð frá bankanum okkar, sem þeir gætu gengið að,“ segir Magnús. Hann segir þó að United Silicon skuldi ÍAV ekki neitt.

Gerðu báðir tilkall til búnaðar

Lögreglan var kölluð að vinnusvæði United Silicon í gær vegna ágreinings um búnað á svæðinu, sem bæði ÍAV og United Silicon gerðu tilkall til. Að sögn Magnúsar varðar ágreiningurinn búnað sem United Silicon hefur greitt fyrir. Málið hafi verið leyst án þess að til mikilla átaka kæmi.

„Við tókum þá ákvörðun í gær að það eina sem væri í stöðunni var að rifta samningnum við þá [ÍAV]. Við gerðum það í gær klukkan 15 og það var kannski það sem gerði það að verkum að þeir urðu svona fúlir.“

Fagnar því að málið fari fyrir dóm

Magnús segir að verkið sé búið að mestu leyti. Hlutverk ÍAV sé búið og verkið verði klárað með mannskap United Silicon og undirverktaka.

Spurður um álit sitt á ÍAV segir Magnús: „Verkamennirnir hérna á staðnum hafa staðið sig ágætlega. Við höfum haft ágreining við yfirstjórnina í félaginu. Þessi ágreiningur fer núna bara fyrir gerðardóm. Við fögnum því, því við höfum reynt að leysa þessar deilur síðustu tvo mánuðina. Þeir hafa verið óskiljanlega erfiðir að eiga við.“