Með samvinnu og lýðræðislegum gildum er hægt að stjórna veiðum á makríl, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í aðsendri grein í Wall Street Journal . Það verði hins vegar ekki gert með ólöglegum viðskiptaþvingunum af hálfu Evrópusambandsins.

Grein Sigurðar Inga birtist á vef WSJ í kvöld. Þar segir hann að fjandsamlegt tal um viðskiptaþvinganir af hálfu ráðamanna Evrópusambandsins í Brussel skaði allar tilraunir til þess að reyna að ná sameiginlegri langtímaniðurstöðu um sameiginlegan makrílkvóta.

Sigurður Ingi segir í greininni að allt frá árinu 2010 hafi íslensk yfirvöld ítrekað komið með hugmyndir að lausnum á makríldeilunni sem yrðu ásættanlegar fyrir Ísland, Færeyjar, Noreg og Evrópusambandið. Þessum tillögum hafi verið hafnað.

Það hafi verið stórhuga skref hjá nýrri ríkisstjórn Íslands að stinga upp á því að samningaviðræður myndu hefjast aftur. Það sé mikið ánægjuefni að Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafi samþykkt að taka þátt í samningaviðræðunum. Sérstaklega sé þátttaka Noregs ánægjuefni þar sem yfirvöld þar hafi sagt að ríkið gæti ekki tekið þátt í samningaviðræðum fyrr en að loknum kosningum í byrjun September.

Sigurður Ingi segist vona að með þessum samningaviðræðum ættu menn ekki að þurfa að efast um að það sé vilji Íslendinga að ná fram ásættanlegri lausn á deilunni sem byggi á vísindalegum niðurstöðum. Hann ítrekar að viðskiptaþvinganir séu röng og ólögleg lausn.