Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti um 0,25 prósentustig í gær, segir greiningardeild Glitnis.

Þetta er fimmtánda hækkun bankans síðan hann hóf vaxtahækkunarferli sumarið 2004 og eru stýrivextir í Bandaríkjunum nú 4,75%.

Í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar hækkaði gengi Bandaríkjadals, en verð bandarískra hlutabréfa og ríkisskuldabréfa lækkaði vegna væntinga um dýrari lánsfjármögnun.

Greinendur erlendis búast almennt við frekari vaxtahækkun 10. maí næstkomandi, en óbreyttum stýrivöxtum eftir þarnæsta vaxtaákvörðunarfund í lok júní.

Gangi spár þeirra eftir þarf Seðlabanki Íslands að hækka vexti um a.m.k. 0,50 prósentustig til að viðhalda óbreyttum vaxtamun gagnvart Bandaríkjunum frá og með miðjum maí.

Þá er búist við að Evrópski seðlabankinn (ECB) hækki stýrivexti sína um 0,25 prósentustig í byrjun maí og flestir spáaðilar eiga von á annarri vaxtahækkun hans á haustdögum.

Í stórum dráttum má því segja að Seðlabanki Íslands þurfi að hækka stýrivexti um 0,50 prósentustig fyrir mitt ár til að halda sama vaxtamun við útlönd og nú er, segir greiningardeildin.

Markaðsaðilar bjuggust almennt við hækkuninni og beindist athygli manna fyrst og fremst að þeim skilaboðum sem fylgja myndu frá stjórn bankans.

Þykir tónn hins nýja bankastjóra, Ben Bernanke, og samstarfsmanna hans vera nokkuð hvass og gefa vísbendingu um að hvergi verði slakað á klónni í þeirri viðleitni að halda niðri verðbólgu í Bandaríkjunum, segir greiningardeild Glitnis.