Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 2% eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti um 0,25 prósentustig í gær. Vaxtahækkunin var sú fjórða frá því bankinn hóf að hækka stýrivexti sína í júní á þessu ári. Skilaboðin voru þau hin sömu og áður í tilkynningu þeirri sem bankinn sendi út með ákvörðun sinni en tilkynningin vekur oft á tíðum meiri athygli en vaxtaákvörðunin sjálf. Seðlabankinn er áfram bjartsýnn á efnahagslífið, framleiðsla í hagkerfinu helst mikil þrátt fyrir hátt olíuverð ásamt því sem staðan á vinnumarkaði hefur batnað töluvert.

Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú álíka háir og verðbólga og ættu því sem slíkir vera hlutlausir eða halda áfram að stuðla að vexti í hagkerfinu. Búist er við að bankinn haldi áfram að hækka vexti á næstu misserum og að jafnvel verði næsta vaxtahækkun um miðjan desember þegar bankinn fundar á ný um vexti segir í Morgunpunktum Íslandsbanka.