Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa mótað stefnu sem miðar að því að koma á varanlegum stöðugleika í gengis- og efnahagsmálum.

Haft var samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við það verk.

Þetta kemur fram í stefnuyfirlýsingu frá Seðlabankanum í dag.

Þar segir að stefnan sé í meginatriðum þríþætt: Í fyrsta lagi aðhaldssöm peningastefna sem treystir stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og styrkingu krónunnar.

Í annan stað ber að sýna varfærni í ríkisfjármálum. Ekki verður komist hjá tímabundnum halla vegna þess áfalls sem orðið er. Langtímastefna í ríkisfjármálum verður að miða að því að skulda- og greiðslubyrði verði viðráðanleg þrátt fyrir tekjutap og útgjaldaauka.

Loks verður nauðsynleg endurreisn fjármálakerfisins að vera gagnsæ og lúta viðurkenndum leikreglum.

Þá kemur fram að til þess að undirbúa eðlileg gjaldeyrisviðskipti hækkaði Seðlabankinn stýrivexti í 18% hinn 28. október sl. í samræmi við samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Í stefnuyfirlýsingunni kemur fram að ekki sé útilokað að gengi krónunnar lækki fyrst í stað eftir að hömlur á almenn gjaldeyrisviðskipti verða afnumdar. Þá segir Seðlabankinn líkur standa til að slík lækkun standi stutt. Undirliggjandi efnahagsþróun muni þannig styðja við gengi krónunnar.

Útiloka ekki aðgerðir vegna þróunar gengisins

Af framangreindum ástæðum er ekki fyrirfram gert ráð fyrir að Seðlabankinn þurfi að grípa til aðgerða vegna þróunar gengisins, hvorki með hærri vöxtum né sölu gjaldeyris.

„Það er þó ekki útilokað,“ segir í stefnuyfirlýsingu bankans.

„Bankinn mun gæta strangs aðhalds í lánveitingum til bankakerfisins þar til tekist hefur að skapa traust á gjaldeyrismarkaði.“

Sjá stefnuyfirlýsinguna í heild sinni á vef Seðlabankans .