Seðlabankinn hefur ekki orðið við ítrekaðri beiðni Viðskiptablaðsins um að fá afrit af skýrslu um fundi fulltrúa Seðlabankans í London í febrúar síðastliðnum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri greindi frá skýrslunni í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs í vikunni.

Seðlabankastjórinn greindi þar einnig frá því að honum væri kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra yfirvalda er þau ákváðu að beita hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans í síðasta mánuði. Viðskiptablaðið hefur óskað eftir viðtali við bankastjórann vegna þeirra ummæla, en því erindi hefur ekki verið ansað.

Í fyrrnefndri ræðu sagði Davíð: "Fulltrúar Seðlabankans áttu fundi í London í fyrri helmingi febrúarmánaðar á þessu ári. Þeir voru með háttsettum mönnum í fjölmörgum stærstu bönkunum, sem mest viðskipti áttu við Ísland og íslensk fyrirtæki, og eins fundir með matsfyrirtækjum sem þar eru staðsett. Þótt Seðlabankamenn hafi lengi haft áhyggjur af stöðu bankakerfisins, varð þeim mjög brugðið vegna þeirra viðhorfa sem komu fram á fundunum í London. Þegar heim var komið var óskað eftir fundi með forustumönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla um ferðina sem þá var til í handriti."

Davíð greindi frá því að skýrslan væri alllöng og las síðan upp kafla úr henni. Þar kæmi m.a. fram að fyrirferð íslenskra banka í fjármálalífi Íslendinga væri slík að yrði þeim hált á svelli þá dyttu aðrir með þeim.