Össur Kristinsson var maður ársins í íslensku viðskiptalífi árið 1995 og átti þá 95% eignarhlut í samnefndu stoðtækjafyrirtæki en seldi sig síðar út. Hann hefur heldur betur breytt um vettvang síðan þá og setti 5 milljarða í þróun nýrrar bátagerðar, en hélt þó lengur áfram í stoðtækjageiranum en margir þekkja.

Meðal þeirra fjölmörgu áhrifamanna sem útnefndir hafa verið menn ársins í íslensku viðskiptalífi á 80 áraferli Frjálsrar verslunar er einn sem hefur látið lítið fyrir sér fara og ekki oft léð máls á viðtölum. Stoðtækjafræðingurinn Össur Kristinsson, sem samnefnt stoðtækjafyrirtæki heitir eftir, var valinn af blaðinu, í samstarfi við Stöð 2, árið 1995 fyrir að flytja út íslenskt hugvit með framúrskarandi árangri.

Þá hafði á sex ára tímabili orðið margföldun í útflutningsverðmætum fyrirtækisins, frá fyrir andvirði 5 milljónir króna í 420 milljónir, á verðlagi hvors árs, en þess má geta að á síðasta ári var velta fyrirtækisins 613 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar nærri 75,5 milljörðum íslenskra króna. Á þessum tíma var Össur hf. að 95% hluta í eigu Össurar og fjölskyldu hans, enda hefði fyrirtækið ekki orðið til nema fyrir uppfinningar hans. Hann segir það sem upp úr standi frá þessum tíma auðvitað vera mögnuð saga fyrirtækisins og hvar það er í dag.

„Þótt Össur hf. byggði á mínum grunnhugmyndum átti ég auðvitað minnstan þátt í því að þenja þetta fyrirtæki út og allt sem hefur prjónast við það í dag. Sjálfur hef ég enga þörf fyrir athygli og vinn best í einrúmi,“ segir Össur sem man vel eftir verðlaunaafhendingunni. „Það sem kom fólki mest á óvart var að ég skildi hafa einhvern talanda og hafa eitthvað að segja í þessari verðlaunaafhendingu, þó ég muni nú ekki eftir því hvað ég sagði. Eflaust er það því ég hef lítið vilja vera í fjölmiðlum og svo er í raun enn.“

Össur gerði þó góðfúslega undantekningu fyrir Frjálsa verslun enda ekki oft sem fjölmiðlar á Íslandi verða 80 ára gamlir, en þess má geta að í umfjölluninni í blaðinu frá þessum tíma var einmitt sagt frá vinsældum hans sem fyrirlesara á ráðstefnum um stoðtæki víða um heim.

Stofnaði annað stoðtækjafélag

Þótt þekkt sé að í kjölfar þess að hann hætti afskiptum að rekstri Össurar hf., hafi Össur stofnað bátasmiðjuna Rafnar utan um hönnun sína á bátalagi, sem hann hefur trú á að geti valdið straumhvörfum, voru það ekki síðustu afskipti hans af stoðtækjaheiminum.

„Um leið og við stofnuðum Rafnar þá stofnuðum við félag sem heitir OK Prosthetics utan um aðferð sem við höfðum til þess að setja gervifætur undir fólk á einungis hálftíma. Þetta voru samt sem áður bestu gervifætur sem fengust hvar sem er í heiminum,“ segir Össur sem á næstu árum ferðaðist til ýmissa landa þar sem almenningur hefur löngum ekki haft aðgang að nútímalegum stoðtækjum.

„Við vorum í Pakistan, á Gasa, í Namibíu, Angóla, Kúpu og Haíti, hreinlega úti um allt og settum fætur undir að minnsta kosti 3.000 manns, sem gekk þá strax og jafnvel hljóp. Þá er ég að tala um gervifót fyrir neðan hné, sem á Vesturlöndum kostar fimm til tíu þúsund Bandaríkjadali, en við gátum framleitt fyrir innan við 1.000 dali, með öllum ferðakostnaði og öðru umstangi. Ég lagði einhverjar 40 til 50 milljónir króna í þessa starfsemi, með það í huga að einhvern tímann rækist einhver á Vesturlöndum á þetta og segði, bíddu nú við, fyrst þetta er hægt að gera þarna í þróunarríkjunum, af hverju er ekki hægt að gera þetta hér.“

Össur segir að þótt OK Prosthetics hafi verið sett upp sem einkafyrirtæki en ekki góðgerðastarf hafi það þó öðrum þræði verið markmiðið með starfseminni. „Hitt markmiðið með þessu var að velta fyrir sér hvort fólk gerði sér grein fyrir því að oft er það sem við erum að gera hérna á Vesturlöndum hálfsjúkt, því hægt er að gera margt á allt annan og ódýrari hátt,“ segir Össur sem þó seldi félagið á endanum til síns gamla félags.

„Þarna var frekari þróun sem þeir höfðu áhuga á, en það sem við gerðum var að fara með einingar eins og þær sem Össur hf. framleiðir og búa til úr því fætur, með því að búa til góða hulsu sem er lykillinn fyrir að vera með góðan gervifót. Því miður er enginn sem heldur þessari starfsemi uppi í dag, því þetta er svo einfalt og ódýrt að það tekur nánast ekki tali.“

Össur er gagnrýninn á góðgerðastofnanir eins og Rauða krossinn og aðrar slíkar sem helst hafa sinnt stoðtækjaþjónustu í þessum heimshlutum og segir alltof mikinn hluta af framlögum til þeirra fara í eigin rekstur og yfirbyggingu, en jafnframt séu vörur þeirra hreinlega ekki nógu góðar og með skamman endingartíma.

„Þvert á móti get ég sagt þér til dæmis dæmi frá Kúbu þegar við komum þangað aftur seinna, að þá komu til okkar karlar sem enn voru að nota sömu fæturna og við höfðum sett undir þá fjórum árum fyrr,“ segir Össur sem hafði vonast eftir því að þessi starfsemi gæti haldið áfram. „Það er því miður vonlaust, fyrirtækin hafa aðallega áhuga á þessum 20% sem geta borgað fyrir hátækni og gefa þeim allan hagnaðinn. Góðgerðastarfið er allt saman í auglýsingaskyni.“

Notaði fimm milljarða í þróunarstarf

Síðasta sumar var í fréttum að bátasmiðjan Rafnar hafi farið í gegnum endurskipulagningu en hún byggir eins og áður segir á hönnun Össurar. „Ég hef átt marga stóra báta, sá stærsti var 40 metra langur með 6 manna áhöfn og svo hef ég siglt á ótal, ótal mörgum svokölluðum Ribs bátum og upplifað hvernig þeir hegða sér og því fór ég að velta þessu fyrir mér. Út frá þeim pælingum þroskaðist og þróaðist þessi hönnun og er hún nú orðin einstök því þú sérð eiginlega ekkert kjölsog eftir þessa báta,“ segir Össur.

Eins og áður segir þurfti bátasmiðjan að fara í gegnum mikla endurskipulagningu í vetur. „Það var búið að nota milli fjóra og fimm milljarða í þróunarstarf, við vissum ansi vel hvað við höfðum, en svo þraut sjóðina, svo þá höfðum við ekkert annað að gera en að segja upp starfsfólki. Við erum þó enn með vissan kjarna þarna í Vesturvörinni sem er ennað vinna og við erum að rísa úr öskustónni svo að segja,“ segir Össur.

„Við erum til dæmis með þennan 16 metra björgunarsveitarbát sem við fáum vonandi samning fyrir, og í framtíðinni getum við smíðað allt að 24 metra varðskip ef þess þarf. Björgunarsveitir víða að, frá Fáskrúðsfirði og Kópavogi sem og sveitir frá Danmörku, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Bandaríkjunum og í raun alls staðar að hafa komið hingað í könnunarferðir. Þegar stigið er upp úr þessum bátum eftir prufukeyrslu þá eru þeir með glýju í augunum. Málið er að þeir sem koma og prófa þessa báta eru ekki endanlegu kaupendurnir, og þar koma útboðsreglur, til dæmis á EES-svæðinu, og önnur peninga- og kerfislæg mál inn í sem tefja framþróun.“

Spurður hvort hann sjái eftir þeim hátt í 5 milljörðum króna af söluandvirði á bréfum í stoðtækjafyrirtækinu Össur hf., sem Össur Kristinsson hefur sett í þróunarstarf bátasmiðjunnar Rafnar, segir Össur: „Nei aldeilis ekki, þetta hefur verið óskaplega gaman. Ég hef unnið með gríðarlega mörgu fólki sem hefur veitt mér innblástur, og verið góðir vinir og ég sé ekki eftir neinu.“

Össur segist ekki vera á flæðiskeri staddur þó að félagið hafi þurft að fara í gegnum uppstokkun þegar sjóðina þraut. „Nei ég er það ekki, og það sem við erum að gera núna er að endurbyggja bátasmiðjuna Rafnar.“

Nánar er fjallað um málið í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar sem er nýkomið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .