Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins sé rökrétt og vel framkvæmanleg. Þetta sagði Sigmundur Davíð í ræðu á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. Samtök atvinnulífsins hafa sett fram stefnu um það hvernig Ísland getur komist í hóp 10 samkeppnishæfustu þjóða í heimi.

Sigmundur Davíð sagði að þessi stefnumótun krefðist framtakssamra atvinnurekenda og góðra stjórnvalda. „Sem betur fer höfum við hvorutveggja á Íslandi og getum því leyft okkur að horfa björtum augum til framtíðar,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð sagði að Ísland byggi yfir griðarlegum tækjum til framtíðar. „Hið stóra efnahagslega plan felst í því að trúa á Ísland. Í því að trúa á þann kraft sem býr í fólkinu, í landinu og miðunum. Að trúa á okkur sjálf,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði að stóra planið framundan byggist á virkum alþjóðasamskiptum, þar sem horfa þyrfti í allar áttir, en einnig agaðri hagstjórn. Minnti Sigmundur Davíð þar á að fjármálaráðherra hefði kynnt frumvörp um agaðri stjórn fjármála og í farvatninu væru endurbætt lög um Seðlabanka Íslands.

Þá sagði Sigmundur Davíð að mikilvægt væri að bæta úr þeim vanda sem fælist í gjaldeyrishöftunum.

„Við megum ekki hætta á að okkur fari að líða of vel í því skjóli sem höftin veita,“ sagði Sigmundur Davíð og bætti því við að höftin rýrðu samkeppnishæfni þjóðarinnar í hvert ár sem þau væru við lýði.

Hann minnti á að afnám gjaldeyrishaftanna væru háð því að skuldaskil föllnu bankanna yrðu með þeim hætti að þau stefndu ekki í hættu efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Tækist slitastjórnum ekki að leggja fram frumvarp að nauðasamningum þar sem gætt væri að stöðugleika þá yrðu bankarnir að fara í þrot.