„Ég bara varpaði þessu fram en fékk ekki svör frá öllum. En þetta er eitthvað sem við þurfum að hugsa um held ég: Hvar erum við stödd ef lögmenn lýsa því yfir í raun að þeir treysti dómstólum ekki til að gæta að réttindum sakborninga?“ spurði Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari.

Sigríður varpaði spurningunni fram í málstofu á Lagadegi Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Dómarafélags Íslands sem stendur yfir í dag á Hilton Nordica Reykjavík. Yfirskrift málstofunnar var: Staða lögfræðinnar í samfélaginu. Sigríður var á meðal gesta í málstofunni. Framsögumenn voru þau Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, en í pallborði voru Jónar Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands, Kristín Edwald, formaður Lögfræðingafélags Íslands, Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands, auk dr. Guðmundar Sigurðssonar, deildarforseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Þétt er setið á málþinginu en talið er að rúmlega 300 lögfræðingar séu þar staddir.

Treysta ekki dómstólum til að gæta að réttindum sakborninga

Sigríður segir í samtali við vb.is marga lögmenn velta fyrir sér stöðu lögfræðinnar eftir að lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, verjendur þeirra Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, eins af stærstu hluthöfum Kaupþings, hættu störfum fyrir þá í Al Thani-málinu.  Rökin fyrir ákvörðun lögmannanna var sú að þeir telja réttarkerfið hafa brotið á skjólstæðingum sínum. Málið er einsdæmi. Aðalmeðferð átti að hefjast 11. apríl síðastliðinn. Henni var hins vegar frestað um óákveðinn tíma og þeim Sigurði og Ólafi skipaðir nýir verjendur.

Hún bætir við að lítið hald sé í rökum lögfræðinganna enda megi lesa í tilkynningu sem þeir sendu frá sér um málið á sínum tíma að treysti dómsstólum ekki til að gæta að réttindum sakborninga.

„Það fyrsta sem manni kemur í hug að það hefði getað verið fóður í vörnina. Ég vildi varpa þessu fram því almenningur hefur lítið traust til dómstóla og réttarkerfisins. Ef þeir síðan, þessir reyndu lögmenn, lýsa því yfir að þeir beri ekkert traust til dómstólanna, þá er lögfræðin komin í undarlega stöðu,“ segir Sigríður.

Tryggvi Gunnarsson tók undir með Sigríði og sagði að þetta verði að taka til skoðunar enda eitthvað sem aldrei áður hefur komið upp.