Sigurður Óli Ólafsson tók í júní við stjórn lyfjafyrirtækisins Mallinckrodt er félagið kom út úr tveggja ára greiðslustöðvun í Bandaríkjunum eftir röð hneykslis- og bótamála. Hann hefur á sínum ferli stýrt fjölmörgum lyfjarisum, á borð við Hikma, samheitasviði Teva og Actavis.

Mallinckrodt samþykkti fyrr á þessu ári að greiða 1,75 milljarða dollara, um 240 milljarða íslenskra króna í bætur vegna ábyrgð sinnar á ópíóðafaraldrinum í Bandaríkjunum. Félagið seldi um 28,8 milljarða opíóðapillur á árunum 2006 til 2012 og var með nærri 38% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum. Þegar Mallinckrodt fór í greiðslustöðvun árið 2020 hafði því verið stefnt í yfir 3.000 málum er tengdust ópíóðasölu og heildarbótakrafan hljóp á þúsundum milljarða dollara.

Í fyrsta uppgjörsfundi sínum nefndi Sigurður að félagið þyrfti nú að horfa til framtíðar og einbeita sér að sölu og frekari lyfjaþróun. Þá þyrfti áfram að grynnka á skuldum félagsins og bæta fjárhagsstöðuna. Starfsmenn félagsins eru nú um 2.700 og hefur fækkað nokkuð en þeir voru um 5.500 árið 2017.

Nánar er farið yfir málið og feril Sigurðar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 22. september 2022.