Símanum hafa borist upplýsingar um að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi áritað sem aðfararhæfan úrskurð í ágreiningsmáli Símans og fjarskiptafyrirtækisins Seamobile Europe sem rekinn var fyrir gerðardómi í París.

Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar en gerðardómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Símanum beri að greiða skaðabætur, einkum vegna meints missis framtíðarhagnaðar á grundvelli samnings sem Landssími Íslands hf. gerði við fyrirtækið Geolink á árinu 2003 um fjarskiptaþjónustu á alþjóðlegum hafsvæðum. Kröfufjárhæð nemur um 7,7 milljónum evra.

Í tilkynningunni kemur fram að Síminn telji að úrskurður gerðardómsins sé ekki í samræmi við íslensk lög, en það var samkomulag milli aðila að íslensk lög  lægju til grundvallar úrskurði gerðardóms.

„Síminn mun í framhaldinu grípa til þeirra varna sem félaginu eru tiltæk, lögum samkvæmt,“ segir í tilkynningunni.