Kínverska tæknifyrirtækið Baidu hefur fengið leyfi frá kínverskum yfirvöldum til að stafrækja sjálfkeyrandi leigubíla með engum ökumanni eða starfsmanni í bílnum. Fimm leigubílar frá Baidu munu bætast við borgirnar Wuhan og Chongqing, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Fyrirtækið hefur nú þegar stafrækt fjöldann allan af sjálfkeyrandi bílum í borgum Kína. Fram að þessu hafa bílarnir þó þurft að vera með starfsmann á vegum fyrirtækisins í bílnum til vonar og vara.

Kínversk yfirvöld hafa í auknum mæli samþykkt regluverk sem leyfa sjálfkeyrandi bíla á vegum. Ómönnuðu leigubílarnir munu keyra á afmörkuðum svæðum þegar mesta umferðin er, til að koma í veg fyrir bílslys. Fyrir hverja tvo sjálfkeyrandi leigubíla í notkun er Baidu jafnframt með einn starfsmann sem fylgist með bílunum í gegnum fjarbúnað.

Töpuðu 18 milljörðum á þremur mánuðum

Baidu tapaði 131 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi 2022, eða sem nemur 18 milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 3,8 milljarða dala á síðasta ári, um 520 milljarða króna. Rannsóknar- og þróunarkostnaður félagsins jókst þó um 10% á milli ára, að því er kemur fram í grein Financial Times.

Baidu, sem er með höfuðstöðvar sínar í Peking, ætlar að tvöfalda bílaflotann sinn í Kína á næstu misserum þannig að fjöldi sjálfkeyrandi leigubíla verði orðinn meiri en 600 fyrir síðasta ársfjórðung.

Baráttan milli Bandaríkjanna og Kína

Sérfræðingar telja að sjálfkeyrandi farartæki séu nýr vettvangur fyrir samkeppni á milli Bandaríkjanna og Kína. Það sé ekki einungis samkeppni um nýjustu tækni heldur einnig samkeppni á milli ríkjanna þegar kemur að stefnumótun fyrir nýja atvinnugrein.

Cruise LLC, félag í eigu General Motors Co., fékk nýlega leyfi frá yfirvöldum til að rukka fullt verð fyrir sjálfkeyrandi bílferðir að nóttu til í San Francisco.

Waymo LLC, félag í eigu Alphabet Inc, hóf fyrr á árinu að stafrækja sjálfkeyrandi bíla með engum starfsmanni í bílnum í sömu borg, en bílferðir Waymo eru þó ókeypis og einungis aðgengilegar starfsfólki félagsins.