Nýtt björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar kom til hafnar í Reykjavík í dag. Formleg afhending skipsins, sem fær nafnið Þór, verður í Vestmanneyjum laugardaginn 1. október þar sem skipið verður með heimahöfn.

Þetta er fyrsta skipið af þremur sem Landsbjörg hefur gengið frá kaupum á en um er að ræða stærsta fjárfestingaverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar til þessa.

Sjóvá leggur fram 142,5 milljóna króna styrk vegna björgunarskipanna þriggja en til stendur að endurnýja öll 13 björgunarskip félagsins. Hvert nýju skipanna kostar um 285 milljónir króna. Þá hafði ríkið og Landsbjörg gert samkomulag í janúar 2021 sem tryggir allt að helmings fjármögnun skipanna. Auk þess hafði Slysavarnafélagið Landsbjörg hafði safnað í nýsmíðasjóð í nokkurn tíma.

„Með skipunum styttist viðbragðstími Landsbjargar á sjó um helming í flestum tilfellum,“ segir í tilkynningu. „Með nýjum björgunarskipum verður bylting í viðbragðstíma og aðbúnaði fyrir áhafnir og skjólstæðinga. Skipin skipta miklu máli fyrir öryggi sjófarenda í kringum landið og eru einnig hönnuð með það í huga að geta aðstoðað við björgunarverkefni á landi, s.s. með því að tryggja fjarskipti á fáförnum stöðum ef þörf krefur.“

Fáheyrt að svo rausnarlegar gjafir berist til sjálfboðaliðasamtaka

Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir að smíði nýju skipanna sé stærsta fjárfesting sem félagið hafi ráðist í frá upphafi.

„Svona veglegur styrkur frá Sjóvá er afrakstur áratuga trausts samstarfs, og gerir okkur kleift að hefja smíði fyrstu þriggja skipanna.“

Kristján bætir við að styrkurinn frá Sjóvá sé afar mikilvægur og fáheyrt að svo rausnarlegar gjafir berist til sjálfboðaliðasamtaka.

„Við viljum þakka Sjóvá fyrir þetta rausnarlega framlag. Það kom inn í verkefnið á afar mikilvægum tímapunkti og gerði það að verkum að við gátum hafið smíði á fyrsta skipinu. Við erum þakklát fyrir traustið sem Sjóvá sýndi okkur með því að leggja svo mikið fram þegar skipin voru aðeins teikningar á blaði,“ segir Kristján.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, segir að tryggingafélagið sé stolt af því að geta stutt Landsbjörg í þessu mikilvæga verkefni.

„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að fá ný björgunarskip sem munu gjörbylta öryggi sjófarenda á hafinu í kringum landið og þjónusta byggðir þess um leið. Við höfum sem aðalstyrktaraðili um áratuga skeið átt afar traust og gott samstarf við Slysavarnarfélagið Landsbjörg og er okkur því sérstakt ánægjuefni að styðja við þeirra mikilvæga starf með þessum hætti og sinna þannig um leið samfélagslegri ábyrgð okkar." segir Hermann.