Skel fjárfestingafélag hyggst haga rekstri dótturfélaganna Orkunnar og Skeljungs með þeim hætti að félögin verði skráningarhæf á næstu þremur árum. Í fjárfestakynningu Skeljar kemur fram að markmiðið sé að þrefalda EBITDA-hagnað Skeljungs á næstu árum og skrá félagið á aðalmarkað eftir 3-5 ár. Þá er stefnt að tvöföldun EBITDA-hagnaðar hjá Orkunni.

„Næstu mánuði verður áherslan fyrst og fremst á núverandi eignasafn. Metnaðarfull markmið um innri og ytri vöxt t.d. hjá Orkunni og Skeljungi og ætlunin er að gera þau skráningarhæf,“ segir í kynningunni.

Rekstur Skeljar var stokkaður upp á síðasta ári og í kjölfarið tóku þrjú dótturfélög til starfa: Orkan IS, Skeljungur IS og Gallon. Skeljungur er umboðsaðili Shell á Íslandi og sinnir m.a. heildsölu á eldsneyti til fyrirtækja. Orkan starfar á sviði þjónustu til einstaklinga og heldur m.a. utan um þjónustustöðvar Orkunnar, Extra, 10-11, Löður bílaþvottastvöðarnar, apótek Lyfjavals og Gló auk þess að fara með eignarhald í Brauð & Co og Wedo, móðurfélagi Heimkaupa. Þriðja dótturfélagið Gallon starfar í einkum í rekstri og og útleigu á birgðastöðvum.

1,6 milljarða hagnaður á öðrum fjórðungi

Skel fjárfestingafélag skilaði 1,6 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi en þar af var hagnaður af sölu fasteigna til verktakafyrirtækisins Reirs upp á 1,4 milljarða. Þá skilaði dómur Landsréttar er varðar endurgreiðslu flutningsjöfnunargjalds frá ríkissjóði 393 milljónum króna auk vaxta.

Sjá einnig: Landsréttur dæmir skatt ólögmætan

Fjárfestingartekjur Skeljar á fjórðungnum drógust saman um 1,8% frá fyrra ári og námu 2,3 milljörðum.

Rekstrargjöld félagsins námu 381 milljón samanborið við 255 milljónir á fyrsta fjórðungi ársins. Í fjárfestakynningu Skeljar segir að rekstrarkostnaður á fjórðungnum og í ár litast af kostnaði vegna uppskiptingar og umbreytinga á félaginu en félagið gerir ráð fyrir að kostnaðurinn nái jafnvægi á næstu tveimur fjórðungum. Markmið Skeljar er að rekstrarkostnaður verði undir 2% af eigin fé eftir þetta ár.

„Reksturinn gekk ágætlega á fjórðungnum, sveiflur á eignamörkuðum, hækkandi olíuverð, truflun í aðfangakeðju og hærra verð á aðföngum fólu í sér áskoranir. Eldsneytisbirgðir eru að stærstum hluta áhættuvarðar. Stefna félagsins hefur verið að afkoma og framlegð af eldsneytissölu sé að mestu leyti fullvarin fyrir skammtímasveiflum í hrávöruverði, til þess að takmarka sveiflur í afkomu rekstrarfélaga,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem tók nýlega við sem forstjóri Skeljar.

Eignir Skeljar voru bókfærðar á 26,7 milljarða króna í lok júní. Þar af voru fjárfestingareignir færðar á 17,6 milljarða. Framvirk staða í VÍS utan efnahags nemur 1,5 milljörðum. Eigið fé nam 23,3 milljörðum.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar:

„Vinna við umbreytingu SKEL úr rekstrarfélagi í fjárfestingafélag hélt áfram á ársfjórðungnum og lýkur um áramótin. SKEL er orðið sterkt fjárfestingafélag með fjölbreytt eignasafn sem unnt er að nýta ásamt fjárhagslegum styrk til frekari tekjudreifingar og verðmætasköpunar fjárfestingareigna félagsins. SKEL hefur ákveðið að haga rekstri Orkunnar og Skeljungs með þeim hætti að félögin verði skráningarhæf á næstu þremur árum.

Reksturinn gekk ágætlega á fjórðungnum, sveiflur á eignamörkuðum, hækkandi olíuverð, truflun í aðfangakeðju og hærra verð á aðföngum fólu í sér áskoranir. Eldsneytisbirgðir eru að stærstum hluta áhættuvarðar. Stefna félagsins hefur verið að afkoma og framlegð af eldsneytissölu sé að mestu leyti fullvarin fyrir skammtímasveiflum í hrávöruverði, til þess að takmarka sveiflur í afkomu rekstrarfélaga.

Á fjórðungnum tók Reir-þróun til starfa, en það er í jafnri eigu SKEL og Fasta, sem er fjölskyldufyrirtæki á byggingamarkaði. SKEL valdi að starfa með eigendum Fasta þar sem félagið býr yfir umtalsverðri þekkingu og reynslu í þróun og byggingu fasteigna. Heildareignir þróunarfélagsins eru metnar á 4.800 milljónir króna og áætlað byggingarmagn er um 46 þúsund fermetrar, eða sem nemur að lágmarki 410 íbúðaeiningum, að teknu tilliti til áætlana og þróunarhugmynda félagsins. Mikill skortur er á íbúðum og með þessari aðgerð getur Reir-þróun komið til móts við íbúðaskort. Verkefnin sem félagið stýrir eru dreifð um Höfuðborgarsvæðið. Fyrsta verkefni félagsins er í Garðabæ þar sem ráðgert er að byggja í áföngum 220 íbúðir. Aðrar eignir eru tekjuberandi sölustöðvar Orkunnar. Umræddar eignir eru við Kleppsveg, Birkimel, Skógarhlíð og Reykjavíkurveg. Þessar eignir eru í frekari þróun, m.a. á grundvelli samkomulags við Reykjavíkurborg, sem borgin gerði við olíufélögin þrjú, um fækkun stöðva árið 2021.

SKEL fékk afhent bréf í Kaldalóni 3. maí og er nú stærsti hluthafi félagsins. Við höfum mikla trú á Kaldalóni og áherslum félagsins. Við sjáum að það er áhugi hjá íslensku atvinnulífi að starfa með félaginu og teljum að öðrum fjárfestum muni þykja félagið áhugaverðara með hverju skrefinu sem það tekur. Vöxtur félagsins hefur verið hraður og eignasafnið er vel til þess fallið að hýsa trausta og arðbæra atvinnustarfsemi til lengri tíma. Við horfum einnig til þess að frekari vöxtur félagsins mun gera því mögulegt að nýta þau tækifæri sem felast á íslenskum skuldabréfamarkaði til lengri tíma litið.

Rekstur orkufyrirtækisins Magn í Færeyjum gengur vel og er áætlað að framkvæmdum dótturfélags Magn við 18MV vindmyllugarð ljúki á árinu. Við sjáum Magn sem dæmi um hefðbundið olíufélag sem hefur tekið stór og ákveðin skref um að vera þátttakandi í hreinni orkuöflun á sínu starfssvæði. Við vonumst til að geta nýtt okkur þekkingu og reynslu þeirra hérlendis þegar fram í sækir.

Markaðsvirði VÍS sveiflaðist nokkuð á fjórðungnum, en var svipað í lok fjórðungs og við upphaf hans. Skammtímasveiflur í hlutabréfaverði félagsins hafa ekki áhrif á þá skoðun SKEL að mikil verðmæti geti falist í rótgrónu vörumerki og fjölmennum viðskiptavinagrunni félagsins í þeim breytingum sem framundan eru í fjármála- og tryggingastarfsemi næstu árin.“