Engar eignir fundust í þrotabúi félagsins H 22 ehf., sem áður hét Borgarvirki ehf. Skiptum á búinu lauk í seinni hluta maímánaðar en það var úrskurðað gjaldþrota í júlí 2010. Verktakafyrirtækið starfaði við vegagerð og framkvæmdir.

Kröfur í búið námu rúmlega hálfum milljarði króna. Mikið tap varð af rekstri Borgarvirkis árið 2008, þegar félagið tapaði 220 milljónum króna. Eignir félagsins það ár námu um 270 milljónum en eigið fé var neikvætt um tap þess árs.

Skuldir ríflega tvöfölduðust milli ára. Í lok árs stóðu þær í um 490 milljónum. Samkvæmt ársreikningi er skýringin fyrst og fremst gengistryggt lán félagsins. Í byrjun árs 2008 námu gengistryggðar skuldir félagsins um 166 milljónum, en 365 dögum síðar var lánsfjárhæðin 338 milljónir, eða 172 milljónum hærri. Að hluta skýrist hækkunin á nýju láni sem tekið var á árinu, samtals um 70 milljóna lán.