Kínversk stjórnvöld hafa skipað Apple að fjarlægja nokkur af vinsælustu samskiptaforritum heims úr snjallforritaverslun sinni (e. app store). Í umfjöllun Wall Street Journal segir að þetta sé enn eitt dæmið þar sem stjórnvöld í Kína leggja kröfur á hendur Apple er varða ritskoðun.

Í morgun voru WhatsApp og Threads, tveir samskipaforrit á vegum Meta, móðurfélags Facebook, fjarlægð af App Store í Kína. Auk þess er ekki lengur að finna smáforritin Signal og Telegram í kínversku útgáfunni af snjallforritaversluninni.

Ofangreind samskiptaforrit eru samtals með um þrjá milljarða notenda víðs vegar um heim.

Eina leiðin til að fá aðgang að þeim í Kína er í gegnum hugbúnaðarlausnir sem gera notendum kleift að komast út fyrir hinn svokallaða mikla eldvegg Kína (e. Great firewall of China), en slíkar lausnir eru notaðar í töluverðum mæli.

Apple sagðist hafa fjarlægt tiltekin smáforrit vegna atriða er varða þjóðaröryggi. „Okkur ber að fylgja lögum í hverju því landi sem við störfum í, jafnvel þótt við erum ósammála þeim.“

Í umfjöllun WSJ segir að kínversk stjórnvöld hafi lengi haft áhyggjur af því að þegnar landsins geti nýtt ofangreind smáforrit til að deila neikvæðu efni sem stuðli að ólgu í samfélaginu.