Ódýrara gæti verið fyrir ríkið að leigja aðra ferju sem ristir grynnra til að sigla til Landeyjahafnar í vetur en að láta Herjólf sigla til Þorlákshafnar þegar hann kemst ekki í Landeyjahöfn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið í dag að leiga á ferju til viðbótar við Herjólf sé eitt af því sem sé í skoðun hjá innanríkisráðuneytinu. Gert er ráð fyrir heimild fyrir leigunni í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að ný ferja myndi aðeins vera til viðbótar yfir veturinn. Ekki standi til að leggja Herjólfi.