Skæruliðabúðir er nafn á tískuvöruverslunum sem eru staðsettar í fáförnum hliðargötum, hafa engar merkingar eða sýningarglugga og starfa ekki lengur en eitt ár á sama stað en njóta samt vaxandi vinsælda meðal ungs fólks. Viðskiptahugmynd skæruliðaverslana gengur þvert á ríkjandi rekstrarform hefðbundinna verslana sem telja mikilvægt að hafa góða staðsetningu, áberandi sýningarglugga og úthugsaðra auglýsingastefnu eins og segir í fréttapósti SVÞ.

Þar er bent á að vinsældir skæruliðaverslana liggi einmitt í hinum vaxandi hópi ungs fólks sem telur sig hafa fengið nóg af auglýsingamennskunni og markaðshyggjunni og sækja því frekar í kjallaraverslanir í hliðargötum.

Vörurnar sem seldar eru í skæruliðaverslunum eru ekki endilega frábrugðnar þeim sem seldar eru annars staðar. T.d. er lýsing í nýjasta blaði Dagens handel , sem gefið er út í Svíþjóð, á slíkri verslun sem selur japanska tískulínu sem einni er að finna í fínum tískuverslunum annars staðar í heiminum. Japönsku framleiðendurnir selja viðskiptasérleyfi (franchise) á skæruliðaverslunum víða um heim og vex ört fiskur um hrygg.

Byggt á fréttapósti SVÞ.