Bolungarvík er það sveitarfélag sem stendur hvað verst og vinnur það nú í samstarfi við eftirlitsnefnd sveitarfélaganna að ná tökum á rekstrinum.

Elías Jónatansson bæjarstjóri segir að heildarskuldir og skuldbindingar  Bolungarvíkur hafi numið 960 milljónum króna í árslok 2007, en gera megi ráð fyrir að þær hafi ekki verið undir 1.250 milljónum um síðustu áramót.

„Við erum að vinna að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 og 2010 og stefnum við að því að skila árinu 2010 með hagnaði," segir hann.

Bolungarvík hefur fengið sérstaka heimild til að leggja aukaálag á hámarksútsvarsprósentu launþega með lögheimili í bænum. Útsvarið í bænum er því 14,61%.

Félagslega húsnæðiskerfið þungur baggi

Þegar Elías er spurður hvers vegna skuldastaðan sé svo slæm nefnir hann þrjár ástæður. Í fyrsta lagi segir hann að rekstrarárið 2007 hafi verið mjög lélegt. Í öðru lagi segir hann að félagslega húsnæðiskerfið hafi verið sveitarfélaginu þungur baggi - en tveir þriðju af skuldum sveitarfélagsins séu tilkomnar vegna þess.

„[Í þriðja lagi] hafa fjárfestingar á árinu 2008 valdið okkur miklum vanda, en ekki var búið að fjármagna þær áður en ráðist var í þær." segir hann.

Sem dæmi um ófjármagnaðar fjárfestingar er endurbygging Félagsheimilis Bolungarvíkur.  Hann segir að nú sé unnið að því að reyna að hagræða. Hann segir ótímabært að greina frá tillögum í þeim efnum, vegna þess að eftir eigi að fjalla um þær í bæjarstjórn. "Reynt verður eftir fremsta megni að draga ekki úr þjónustu," segir hann.

Nánar er fjallað um stöðu sveitarfélaganna í Viðskiptablaðinu.