*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 15. nóvember 2017 14:00

Skúli skoðar flug til suðaustur Asíu

Forstjóri Wow air segir Ísland vera vel staðsett til að tengja N-Ameríku og Evrópu við Asíu, líkt og Finnair gerir frá Helsinki.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skúli Mogensen forstjóri Wow air vildi ekki svara Forbes fréttasíðunni hvert nýjar A330neos flugvélar félagsins myndu fljúga, þó hann staðfesti að félagið væri að horfa á markaði í Asíu. Segir Skúli það sérstaklega áhugavert að skoða hve góðir tengimöguleikar Íslands við Asíu eru fyrir austurströnd Bandaríkjanna, og að ýmsir valkostir séu til skoðunar. 

„Sumir áfangastaðir eru líklegri en aðrir,“ segir skúli sem segir Ísland vera í einstakri stöðu til að tengja saman Norður Ameríku, Evrópu og Asíu. Viðskiptablaðið hefur fjallað um að það hafa verið uppi vangaveltur um að félagið hyggist hefja flug til Indlands og endurtekur blaðamaður Forbes þær, enda búa um 4 milljónir Indverja í Bandaríkjunum og lítið er um valkosti í ferðum á milli landanna nú.

Skúli sjálfur velti þó upp tengimöguleikum líkum þeim sem gerðir hafa verið í gegnum Finnland við suðaustur Asíu, þá Japan, Suður Kóreu og austurhluta Kína. „Það næsta sem við erum að skoða, er að sjá hvað flugvöllurinn í Helsinki og Finnair hafa gert til að tengja Asíu við Evrópu,“ sagði Skúli.

„Fyrir London og sumar evrópskar borgir, er Ísland einungis með litlu verri tengimöguleika heldur en Helsinki, en það er samt sem áður hægt að ná fram lágum kostnaði. Það er mjög erfitt að herma eftir getu okkar til að tengja þessar þrjár heimsálfur. Það er frábært tækifæri sem við munum á næstu árum leggja mikinn þrótt í.“

Stikkorð: Japan Skúli Mogensen Kína Forbes Indland Suður Kórea Wow air Kína